Tardeo – hið einstaka tapasrölt Alicante

Spánverjar eru miklir gleðimenn og næturhrafnar og í stórborgum landsins heldur lífið áfram langt fram á nótt alla daga vikunnar. Það er til dæmis ekki að ósekju að íbúar höfuðborgarinnar Madrid eru stundum nefndir Los Gatos – eða kettirnir – vegna þess að þeir virðast aldrei þurfa að sofa. Spænsk veitingahús eru yfirleitt tóm fram eftir kvöldi (nema þar sem norður-evrópskir ferðamenn eru uppistaða gestanna) og það er ekki fyrr en upp úr tíu á kvöldin sem að þau eru orðin þéttsetinn. Séu menn á þeim buxunum að ætla að eiga gott kvöld er síðan haldið áfram að rölta á milli staða fram eftir nóttu og jafnvel fram undir morgun.

Auðvitað kallar þetta á svefn fram eftir degi daginn eftir og jafnvel að menn missi af því að eiga góðan dag á ströndinni á sunnudeginum. Fyrir nokkrum árum fór að þróast fram fyrirbæri í Alicante sem orðið er þekkt undir heitinu „tardeo“, sem er samsetning úr orðunum „tarde“ sem merkir síðdegi og „tapeo“ sem merkir að borða tapasrétti. Allt byrjaði þetta á því að nokkrir vinahópar á þrítugs og fertugsaldri komust um sviptað leyti að þeirri niðurstöðu að það væri kannski ekkert endilega góð hugmynd að skemmta sér fram undir morgun á laugardegi og missa í kjölfarið alfarið af sunnudeginum. Þess í stað byrjuðu þessir hópar að hittast eftir hádegi á laugardegi og rölta milli staða og fá sér drykki og tapas. Þetta fór mjög fljótlega að vinda verulega upp á sig og er nú orðið að menningarlegu fyrirbæri sem er farið að setja verulegan svip á borgina á laugardögum.

Allt byrjar þetta á milli eitt og tvö á laugardögum á torginu fyrir framan matarmarkaðinn Mercado Central. Hægt og rólega fara sætin á kaffihúsunum að fyllast og þjónarnir þurfa að hlaupa hraðar til að hafa við að bera drykki og diska í gestina. Fyrr en varir er torgið orðið stappað af fólki og gífurleg stemmning í loftinu. Hægt og rólega fer mannfjöldinn síðan á hreyfingu og byrjar að rölta á milli staða í nærliggjandi götum. Leiðin liggurí suður í átt að sjónum og torginu Plaza Gabriel Miró og dreifist inn á göturnar á þeirri leið. Bærinn hreinlega iðar af lífi, á sumum götum er varla þverfótað fyrir fólki sem situr á útiveitingahúsunum og gengur á milli og inni á skemmtistöðunum er dansað af meiri krafti en um hánótt. Það er eins konar karnival-stemmning í loftinu. Þegar líða tekur á kvöldið fer allt að róast og undir miðnætti eru tardeo-gestirnir búnir að tygja sig í háttinn og vakna eldhressir á sunnudagsmorgni.

Tardeo er orðinn fastur liður á hverjum laugardegi í Alicante og er farið að draga til sín fólk úr nærliggjandi bæjum auk þess sem stöðugt fleiri ferðamenn koma inn í borgina á laugardögum til að taka þátt.

Þetta er tilvalið tækifæri til að kynnast skemmtilegri spænskri stemmningu og koma við á einhverjum af þeim frábæru tapasbörum og börum sem borgin býður upp á.

Þar ber kannski fyrstan að nefna Cerveceria Sento, örlítinn tapasbar í götunni Calle Teniente Coronel Chapúli, þvergötu út frá Römblunni. Sento er ekki mikið stærri staður en íslenskt meðaleldhús, andrúmsloftið er einstakt og maturinn frábær. Starfsfólkið fer á kostum á hverju einasta kvöldi og nær einhvern veginn að sinna gestunum sem stútfylla staðinn daglega hratt, lipurlega og með miklum húmor. Látið þau bara velja fyrir ykkur, þið fáið örugglega gómsætan kjúkling með balsamiksósu, andabollur í sætri hnetusósu, bocadillo-samloku með nautakjöti, beikonrúllu, osta og eitthvað annað sniðugt. Og svo er bara að panta meira, matur og drykkur kostar ekki mikið á Sento og það er nær öruggt að maður gengur út með bros á vör.

Skammt frá er síðan annar svipaður tapasbar, Alioli, sem er aðeins „alvarlegri“, ekki sömu lætin en á móti kemur vínlisti þar sem hægt er að fá virkilega góð vín í glasavís (t.d. mjög góð vín af Alicante-svæðinu) og frábært úrval af pylsum, ostum og öðrum smáréttum.

Og fyrir þá sem eru í alvöru Tardeo-stemmningu þegar að fer að líða á daginn er barinn El Portal Taberna & Wines í Calle Bilbao, steinsnar frá Sento, flottur kostur. Barþjónarnir sýna listir sínar við kokteilgerðina og kunnar þar vel til verka auk þess sem hægt er að fá mjög góðan mat og gott úrval vína á staðnum.

Deila.