Indverskt lambafile á grillið

Það breytist matargerðin hjá mörgum yfir sumarið og færist meira út á pallinn, svalirnar, garðinn eða hvar sem grillið kann nú að vera staðsett. Það er hins vegar engin ástæða til að takmarka grillmatargerðina við hefðbundnar BBQ-sósur og marineringar. Hvers vegna ættum við ekki að borða indverskt þótt við séum að grilla?

Þessi marinering á sérstaklega vel við lambafile en auðvitað er líka hægt að nota t.d. lamba prime.

Byrjið á því að blanda eftirfarandi kryddum saman:

 • 1 msk paprika
 • 1 msk cummin
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk cayenne
 • 1 tsk kardamomma
 • 1 tsk kóríander
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk múskat

Blandið kryddunum saman í skál/fati. Skerið raufar í puruna á file-bitunum og veltið þeim upp úr kryddinu.

Takið nú kjötið aðeins upp úr skálinni/fatinu og takið til:

 • 3 msk grísk jógúrt
 • 3 pressuð hvítlauksrif
 • safi úr 1 lime.

Blandið þessu vel saman við kryddið sem eftir er í skálinni. Veltið síðan kjötbitunum aftur úr úr krydd-jógúrtblöndunni og leyfið að standa í að minnsta kosti klukkustund.

Hitið grillið vel. Penslið grillið með smá olíu. Setjið kjötbitana á grilið og byrjið á því að láta puruhliðina snúa upp. Grillið í 2-3 mínútur og snúið við. Grillið purumegin í 2-3 mínútur en passið vel að hún fari ekki að brenna. Setjið þá bitana til hliðar á grillinu, slökkvið á brennaranum undir þeim og leyfið að eldast áfram á óbeinum hita í 5-10 mínútur.

Leyfið kjötinu að jafna sig áður en það er skorið niður. Berið fram með:

grillað naan með hvítlaukssmjör

raita-jógúrtsósa

basmati-grjón

Það er svo gott að hafa með þessu bragðmikið nýjaheimsvín, t.d. Montes Cabernet-Carmenere. 

Deila.