Barbie kjúklingur

Krakkar geta verið afskaplega matvandir og vilja oftar en ekki borða neitt annað en það sem duttlungar þeirra segja til um hverju sinni. Þannig hefur það verið með yngstu dótturina á þessu heimili sem á tímabili virtist ætla að taka matvendni í nýjar hæðir. Það var þó eitt sinn sem að réttur vakti athygli þeirrar stuttu en það var þegar boðið var upp á barbíkjú-kjúkling og henni heyrðist að nú væri Barbie-kjúklingur að koma á borðið. Þó svo að Barbie-dúkkur hafi aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá henni varð þessi kjúklingur allt í einu afskaplega spennandi.

BBQ-kjúklingur er alltaf bestur með heimagerðri sósu, sem er leikur einn að gera. Best er síðan að grilla læri, annað hvort á beini eða beinlaus. Velta upp úr sósunni þegar þau eru nær fullelltuð og grilla aðeins áfram báðum megin. Haldið einhverju af sósunni til haga til að bera fram með lærunum.

Til að fullkomna máltíðina mælum við með því að bera lærin fram með mexíkósku maíssalati.

En sósuna gerum við svona. Byrjið á því að blanda saman í skál:

  • 2,5 dl tómatsósa
  • 2,5 dl Heinz Chili Sauce
  • 1 dl púðursykur
  • 2 msk Worchestershire-sósa
  • 1 væn msk sinnep
  • nokkrir dropar af Tabasco
  • klípa af sjávarsalti

Þá er komið að því að gera sósuna. Hitið um matskeið af smjöri í potti. Pressið 3 hvítlauksrif og setjið í pottinn. Mýkið hvítlaukinn á vægum hita í 2-3 mínútur.
BBQ kjúklingur
Hellið nú blöndunni úr skálinni í pottinn. Hækkið hitann aðeins og hrærið stöðugt í þar til að suða kemur upp. Takið af hita og geymið þar til að sósan er notuð. Það má vel geyma hana í ísskáp líka ef það er einhver afgangur.

Fjölmargar fleiri hugmyndir að uppskrifum að grilluðum kjúklingi finnið þið með því að smella hér. 

Deila.