Kolabrautin á ítalskri leið

Kolabrautin hefur verið að breytast hægt og rólega síðustu misserin og matargerðin að færast nær uppruna sínum, þeim ítalska sem við munum eftir frá veitingahúsinu La Primavera.

Matargerðin á Kolabrautinni var upphaflega kynnt með þeim hætti að þarna yrði eldhús sem myndi byggja á íslensku hráefni en styðjast við hefðir sunnar úr Evrópu en eldhúsið þar var líka stundum að daðra við einskonar fusion-eldamennsku.

Smám saman hefur stefnan verið að taka annan kúrs, kannski má segja að fyrsta stóra skrefið hafi verið tekið með Primavera-dögum í upphfai síðasta árs. þar sem Leifur Kolbeinsson og teymið hans endurvöktu þann anda sem að þar sveif yfir vötnum. Alla tíð síðan má segja að Kolabrautin hafi hægt en örugglega orðið ítalskari og nú er svo komið að bæði matseðill og vínseðill eru með þeim hætti að hægt er að fara að tala um Kolabrautina sem ítalskan veitingastað.

Það væri þó mikil einföldun að segja að þarna sé búið að endurvekja Primavera. Það sem nú er í boði er langt í frá einhver fortíðarnostalgía heldur kannski miklu fremur í þeim anda sem að lagt var upp með í byrjun á Kolabrautinni, þarna er verið að byggja á íslenskum hráefnum en styðjast við ítalskar hefðir í matargerðinni og ekki síður þá nýju strauma sem leika um mörg af betri veitingahúsum Ítalíu.

Nýleig heimsókn á Kolabrautina sýndi þetta glöggt. Pastarétturinn  eða primi var Agnolotti, pastakoddar að hætti Piedmont-eldhússins, fylltir með kanínukjöti með mildri sósu, gulrótarsafi og brúnað smjör og mauki. Og það Ítalir myndu nefna secondi var eldbakaður sköturselur, á beini líkt og um góða steik væri að ræða. Fiskurinn safaríkur og alveg hæfilega eldaður umlukinn nokkrum varíasjónum af hnúðkáli, sem smullu fullkomlega að þéttum fiskinum. Og svo auðvitað dolce, ferskt sítrónu zabayone-búðingur með ís.

Matargerðin var  aldrei fyrirsjáanleg, hver einasti diskur frumlegur, spennandi og ekki síst fallegur, framsetningin sjónræn og sumarleg (æt) blóm og jurtir notuð til að skreyta réttina og vera jafnframt hluti af þeim.

Það eru spennandi hlutir að gerast á Kolabrautinni.

Deila.