Óreganó kryddað lambafile með Pilaf

Við Miðjarðarhafið hafa menn löngu uppgötvað að fátt á betur við lambakjöt en óreganó, sítróna og hvítlaukur. Við mælum með lambafile en það má líka nota aðra bita, s.s. kótilettur. Með þessu höfum við pilaf úr örlitlum pastabitum í staðinn fyrir að gera klassískt pilaf úr hrísgrjónum. Því miður er Orzo-pasta yfirleitt ekki fáanlegt hér á landi en litla stafapastað eða „alphabet“-pasta gerir sama gagn.

 • 2 dl ólífuolía
 • safi úr 1 sítrónu
 • 1 lúka ferskt óreganó
 • 2-3 pressuð hvítlauksrif
 • sjávarsalt og nýmulinn pipar

Blandið saman í matvinnsluvél, takið helminginn frá til að bera fram sem sósu og látið kjötið liggja í leginum í um það bil hálftíma eða svo. Takið úr kryddleginum og grillið í 2-3 mínútur með fituhliðina upp. Snúið við og grillið fitumegin í smá stund til að fá stökka puru. Passið ykkur á að brenna ekki puruna, grillið varlega fitumegin. Slökkvið á einum brennara og eldið áfram á óbeinum hita þar til að kjötið hefur náð þeirri eldun sem að þið viljið. Látið kjötið standa við stofuhita í allt að fimm mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Pasta Pilaf

 • 250 g „alphabet“ pasta
 • 1 rauðlaukur, saxaður fínt
 • 1 gulrót, skorin í litla teninga
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
 • klípa af chiliflögum
 • 1/2 Fetakubbur, skorinn í litla bita
 • 1 búnt flatlaufa steinselja, söxuð fínt
 • skvetta af nýpressuðum sítrónusafa
 • ólífuolía
 • sjávarsalt og nýmulinn pipar

Sjóðið pasta.  Það er fínt að setja smá kjúklingakraft út í vatnið.

Hitið olíu á pönnu og mýkið lauk og gulrætur ásamt chiliflögunum. Eftir nokkrar mínútur er hvítlauknum bætt út á. Mýkið áfram í 2-3 mínútur á miðlungshita.

Blandið pasta saman við ásamt fetaosti, steinselju, sítrónusafa og ólífuolíu. Bragðið til með salti og pipar.

Deila.