Róm hefur alltaf haft sitt aðdráttarafl og nú er borgin loksins með beinu flugi (að minnsta kosti yfir sumarmánuðina) komin betur á kortið sem vinsæll áfangastaður Íslendinga. Það er miklu þægilegra að hefja ferð t.d. til Toskana eða Úmbríu með flugi til Rómar en Mílanó og borgin er sömuleiðis fínn upphafspunktur fyrir ferðir suður á bóginn, til Kampaníu, Púglía, Kalabríu og jafnvel Sikileyjar.
Fyrst og fremst er Róm hins vegar ein af örfáum borgum veraldar sem að allir verða að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Á hverju horni blasir sagan bókstaflega við í formi bygginga eða leifa af fornum byggingum og mannvirkjum.
Róm er oft nefnd borgin eilífa og hefur svo verið allt frá tímum Rómverja. Skáldið fræga Publius Ovidius eða Óvid orti um hina eilífu borg og fjölmargar aðrar tilvísanir má finna í Roma Aeterna frá þessum tíma. Rómverjar voru sannfærðir um að þótt heimsveldi myndu koma og fara myndi Róm blíva. Og sú hefur reynst raunin.
Hjartað í Róm eru hæðirnar sjö – eða sette colli di Roma eins og Ítalir nefna þær – við austurbakka Tíberfljóts þar sem borgin hóf að rísa. Sagan segir að Romulus hafi tekið sér búsetu á hæðinni Palatinus eða Palatínhæð. Gönguferð um Forum Romanum sem var miðpunktur hinnar fornu Rómar er einstök upplifun og það er þess virði að bjóða biðröðunum byrginn og heimsækja hið forna hringleikahús eða Colosseum. Sami miðinn gildir fyrir Forum Romanum og Colosseum og það getur verið sniðugt að hefja ferðina í Forum þar sem röðin í miðasöluna er yfirleitt mun styttri þar.
Heimsókn í Páfagarð er að sjálfsögðu einnig eitt af því sem fylgir Rómarferðum og þar bíða einnig miklar biðraðir ef ætlunin er að fara í Páfagarðssafnið en Sixtínsku kapellan sér maður ekki nema að fara í gegnum safn Páfagarðs. Péturskirkjan er sömuleiðis eitthvert mikilfenglegasta mannvirki jarðar og þangað kemst maður án teljandi biðraða.
Til að sjá sem mest af borginni er best að gista í gömlu Róm en þá eru öll helstu kennileiti í þægilegu göngufæri, hvort sem er hringleikahúsið, Pantheon, Trevi-gosbrunnurinn, spænsku tröppurnar eða Páfagarður. Og þá er nú gott að vita til þess að hægt er að fylla á vatnsflöskurnar í einhverjum af þeim fjölmörgu vatnskrönum sem er að finna víðs vegar um borgina en úr þeim streymir ískalt og ókeypis drykkjarvatn.
Það kemur auðvitað einnig til greina að finna sér gistingu til dæmis í hinu vinsæla hverfi Trastevere suður af Tíbereyju þar sem allt iðar af lífi.
Á hverju horni í Róm eru auðvitað veitingahús og ansi mörg þeirra nærast á því að veiða inn þá ótalmörgu ferðamenn sem stöðugt eru á ferli um borgina. Heimsóknir á slíka veitingastaði geta verið sár vonbrigði, að minnsta kosti fyrir þá sem eru að leita að góðum mat.
Það vantar hins vegar ekki frábæra veitingastaði, jafnvel í næsta nágrenni við þekktustu kennileiti borgarinnar. Í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá Pantheon má t.d. finna yndislegt, gamalgróið veitingahús sem heitir Il Fortunato. Þar fær maður ítalska matargerð í háum gæðaflokki, unaðslegt pasta og dýrlega sjávarrétti. Ekki spillir fyrir að ef maður nælir sér í eitthvert af útiborðunum er hægt að horfa yfir til Pantheon á meðan hinir frábæru þjónar staðarins stjana við gesti. Annar stórkostlegur staður ekki langt frá er Casa Bleve, tignarleg Enoteca sem teygir sig upp nokkrar hæðir í palazzo eða höll frá sautjándu öld. Staðurinn er þekktastur fyrir margvíslega kalda antipasto rétti, s.s. vitello tonnato.
Steinsnar frá Spænsku tröppunum og innan um allar vinsælu verslanirnar er Degli Amici (Via della Croce, 33) dæmigerður ítalskur staður sem nýtur mikilla vinsælda meðal listamanna.
Einn af þekktari stöðum Rómar er Alfredo (Piazza Augusto Imperatore 30). Þar eru veggir þaktir myndum af frægu fólki sem að heimsótt hefur staðinn í gegnum árin, ekki síst eru þarna fyrirferðarmiklir Bandaríkjamenn úr „showbusiness“ um og upp úr miðri síðustu öld. Þekktasti réttur staðarins er Fettucine Alfredo, ekki flókinn réttur, Fettucine með fullt af parmesan og smjöri, en mikið óskaplega er þetta gott. Enda hefur rétturinn verið stældur og skrumskældur út í hið óendanlega vestanhafs.
Marga af bestu stöðunum er að finna aðeins utan við ysinn og þysinn þótt þeir séu engu að síður í þægilegu göngufæri. Ef þið hafið tök á ættuð þið að fara á Trattoria Matricianella (Via del Leone, 4) sem er hugguleg og heimilisleg trattoria með frábærum mat og geggjuðum vínseðli. Það er vel þess virði að þræða litlu göturnar á milli Piazza Spagna og Fontanella Borghese til að vinna þessa gersemi. Maturinn er Rómarmatur eins og hann gerist hvað bestur, það er ekkert verið að elta tískustrauma hér. Þetta er gamli góði skólinn.
Róm er auðvitað höfuðborg og matargerð hennar og veitingastaðir eru því undir áhrifum frá öllum svæðum Ítalíu. Eitt er þó ansi dæmigert fyrir Róm og það eru ætiþistlarnir eða carciofe sem oftast eru bornir fram alla Romana, steiktir í ólífuolíu með myntu og steinselju. Í gyðingahverfinu gamla eða gettóinu sem er rétt við Tíbereyju eru einnig nokkrir veitingastaðir sem að bjóða upp á ætiþistla alla guidea eða að hætti gyðinga, ætiþistlarnir flattir út þannig að þeir líta út eins og stór blóm áður en þeir eru steiktir í olíu með steinselju og verða stökkir og ljúffengir.