Meiriháttar mangóís

Heimatilbúinn ís slær alltaf í gegn. Í þennan mangóís má nota hvort sem er ferskan mangó eða frosinn. Ef þið notið ferskan þarf hann að vera þokkalega þroskaður. Niðursoðna sætmjólk (condensed milk) má fá í ýmsum verslunum.

  • 250 g mangóbitar
  • 2 sítrónur
  • 5 dl rjómi
  • 4 dl niðursoðin sætmjólk (condensed milk)
  • 1 tsk vaniljusykur

Rífið sítrónubörkinn á fínu rifjárni.

Setjið mangó í matvinnsluvél ásamt um 1 dl af sætmjólkinni og safa úr ½ sítrónu. Það má jafnvel setja örlítinn sítrónusafa í viðbót. Setjið matvinnsluvélina mjög varlega af stað. Það á að tæta mangóinn í mjög litla bita, þannig að úr verði eins konar grófa sósu en ekki að mauka alveg.

Þeytið rjómann ásamt afganginum af sætmjólkinni og vanillusykrinum þannig að úr verði þykkt krem. Blandið rifnum sítrónuberkinum saman við kremið.

Það er gott að gera ísinn í smelliformi (22-24 sm). Setjið bökunarpappír á botninn áður en að þið smellið forminu saman, þannig verður auðveldara að ná ísnum úr.

Hellið rjómanum í formið. Setjið næst mangósósuna út, eina og eina matskeið í einu og hrærið varlega saman við.

Lokið forminu með plastfilmu og setjið í frysti.

Mangóís

 

Takið ísinn út um það bil korteri áður en á að bera hann fram. Berið fram með berjasósu, t.d. jarðaberjasósu, hindberjasósu eða bláberjasósu.

 

 

 

Deila.