Galisía er eitt fallegasta hérað Spánar en jafnframt líklega eitt af þeim sem Íslendingar þekkja hvað minnst þótt að auknar vinsældir Jakobsvegarins hafi vissulega fjölgað ferðum þeirra sem að fara á þessar slóðir. Strandlengjan er skorin út af fjörðum sem að heimamenn nefna Rias og í sveitunum inn af fjörðunum er að finna besta hvítvínshérað Spánar, Rias Baixas (borið fram Ræas Bæsjas).
Rias Baixas skiptist í fimm undirsvæði, það syðsta er rétt við portúgölsku landamærin og það nyrsta er við heimsenda, eða Finisterre, vestur af Santiago della Compostela. Vínræktin er líkt og víðar á Spáni mjög dreifð. Þarna er ekki mikið um stórar samfelldar ekrur en alls staðar má sjá litla skika við býlin í sveitunum. Flestir sveitungar eru með litla vínekru, lítinn ávaxtalund og blett þar sem ræktaður er maís fyrir nautgripina. Margir gera sitt eigið vín en selja einnig þrúgur til vínhúsa.
Það er rétt tæpir þrír áratugir síðan að Rias Baixas var fellt undir spænska D.O. kerfið (sem er áþekkt franska appelation d’origine-kerfinu) og heimila reglurnar ræktun á nokkrum þrúgum, bæði hvítum og rauðum. Það er hins vegar ein þrúga sem stendur algjörlega upp úr, nefnilega Albarino. Þarna birtist hún í gjörólíkri mynd en í Vinho Verde-vínunum, suður af landamærunum í Portúgal. Spænsku Albarino-vínin eru þykkari, arómatískari og meiri.
Að einhverju leyti er skýringuna að finna ólíkum aðstæðum. Jarðvegurinn í Rias Baixas er fullur af graníti, það þarf ekki að skafa mikið ofan af elsta jarðvegslaginu til að komast niður á granítbergið. Það eru líka nær öll eldri hús byggð úr graníti og granítið gefur víninu hið einstaka steinefnakennda bragð og jafnvel seltu sem er svo einkennandi fyrir vínin.
Hátt í tvö hundruð vínhús, flest þeirra smá, eru starfrækt í Rias Baixas og að öðrum ólöstuðum er vínhúsið Pazo de Senorans fremst meðal jafningja. Hvergi í heiminum eru gerð eins unaðsleg Albarino-vín og í þessu litla vínhúsi í Vilanova, skammt frá borginni Pontevedre.
Þetta er gamalt stórbýli (Pazo) frá sautjándu öld sem hjónin Marisol Bueno og Javier Mareque keyptu árið 1989 og hafa verið að gera upp síðan. Börnin þeirra fjögur hafa nú tekið við rekstri býlisins og halda uppbyggingunni áfram. Sagt er að fernt þurfi að vera til staðar til að stórbýli geti talist vera Pazo. Auðvitað sjálft höfuðsetrið, en einnig kappella, orrio – sem er geymsla á stultum þar sem hægt var að geyma korn, maís, kartöflur og fleira án þess að meindýr eða skordýr kæmust að og svo pálmatré. Allt er þetta til staðar í Pazo de Senorans, meira að segja einhver stærsta orrio-geymsla Galisíu.
Ekrur Pazo de Senorans eru rúmir 20 hektarar að stærð en einnig kaupir vínhúsið árlega þrúgur sem ræktaðar eru á 500 litlum skikum víða um nágrannasveitirnar. Það er mikið umstang í kringum það, enda einar 150 fjölskyldur sem eiga skikana og vera þarf í samskiptum við upp á hvernig eigi að sinna vínræktinni og hvenær eigi að tína þrúgurnar. Þetta er aukabúgrein hjá þrúgubændunum, þeir eru allir í annarri vinnu en sinna ekrunum á kvöldin og um helgar.
Vínviðurinn á ekrum Galisíu er yfirliett settur upp samkvæmt svokölluðu pergola-kerfi, þær eru látnar vaxa upp í rúmlega mannhæð og greinarnar látnar tengjast þannig að úr myndist samfelldur laufskáli. Fyrir þessu er löng hefð en Vicky Mareque segir að tilraunir með að rækta vínviðinn með öðrum hætti sýni að það sé ekki tilviljun að pergola-kerfði hafi orðið fyrir valinu á öldum áður. Það henti aðstæðum í Galisíu vel. Öll vinna á ekrunum verður hins vegar erfiðari og flóknari, bæði að halda vínviðnum við og þrúgutínslan sjálf.
Pazo de Senorans framleiðir einungis þrjú vín og heildarframleiðslan er um 300 þúsund flöskur á ári. 90% af framleiðslunni er Pazo de Senorans Albarino, óeikað, ungt vín sem dregur hinn unaðslega ávöxt vínsins fram með fullkomnum hætti.
Eins góð og þessi vín eru þá eru þetta vín sem geta batnað og batnað með árunum, öðlast meiri dýpt og þyngd. Því segir Vicky að ákveðið hafi verið að setja vín á markað sem fengið hefði nokkra geymslu og heitir það Colleccion, núna er árgangurinn 2011 í gangi, það er komið meira af þurrkuðum ávöxtum og hungangi í nefið, vínið orðið mun margslungnara og meira.
Toppvín hússins er síðan Seleccion de Anada, vín sem hefur fengið smá snertingu við eik og verið geymt lengi. Þetta er einnar ekru vín af ekru við Pazo-ið og vínlögurinn er látinn liggja í þrjú ár í á gerinu (sur lie). Núverandi árgangur er 2007 en vínið hefur samt mikinn ferskleika, sýran er mikil, það er nánast hægt að smjatta á henni, sætur ávöxtur, vanilla, míneralískt með seltu í lokin. Ótrúlegt matarvín.