Hver er jólabjórinn 2015?

Biðin eftir jólabjórunum er alltaf fyllt ákveðinni eftirvæntingu enda er koma þeir orðin í hugum margra ein af mikilvægustu jólahefðunum, svona rétt eins og jólalögin í útvarpi, jólahlaðborðin og hinn að því er virðist óhjákvæmilegi bruni jólageitarinnar hjá IKEA.

Það er því kannski enginn furða að jólabjórunum fjölgi ár frá ári, jafnt hinum innlendu sem hinum innfluttu. Jólabjórar eru vissulega fyrst og fremst norræn hefð og hún er tiltölulega nýtilkominn. Engu að síður þá færist það stöðugt í vöxt með vaxandi vinsældum sérbjóra eða craft beers að bjórar sem tengjast t.d. árstíðum njóta vaxandi vinsælda.

Hugtakið jólabjór er svolítið óljóst. Já, þetta eru bjórar sem eru bruggaðir sérstaklega fyrir þessa árstíð en þegar að við skoðum hvað er í boði þá er svolítið erfitt að festa hendur á því hvað í hugtakinu felist. Stundum eru jólabjórar næsta hefðbundnir lager-bjórar sem að aðgreina sig fyrst og fremst frá öðrum með því að þeir séu auðkenndir á flöskumiðanum með orðinu „jól“. Aðrir jólabjórar eru tækifæri fyrir bruggmeistara til að bregða svolítið á leik og nota margvísleg krydd í bjórin, hvort sem að það er engifer eins og í piparkökunum, ávextir eða súkkulaði og óháð því hvort að verið sé að brugga lager, porter, IPA eða saison. Hér á landi hafa bock-bjórar, sem eru sterkir, svolítið dökkir og maltaðir lagerbjórar, tengst jólunum um nokkuð skeið þótt þeir séu upprunalega í sinni þýsku mynd frekar tengdir fyrri hluta ársins í kringum föstutímabilið. Það er helst í Austurríki  og á seinni árum einnig Þýskalandi sem að bockarnir séu einnig tengdir páskum og jólum.

Vínótekið hélt sína árlegu jólabjörssmökkun í gær og fórum yfir þá bjóra sem að við náðum að komast yfir. Einstaka bjór var á síðustu stundu og náði því miður ekki til okkar í tæka tíð fyrir smökkun.

Við skiptum eins og alltaf smökkuninni í tvennt. Annars vegar hefðbundnari bjórar, lagerar og bockar og hins vegar öflugri sérbjórar. Í báðum flokkunum voru bjórarnir smakkaðir algjörlega blint. Teymið vissi ekki hvaða bjór var verið að smakka hverju sinni og þegar hulunni var í lok smökkunar svipt af bjórunum var ýmislegt sem kom verulega á óvart. Öllum bjórum var gefinn einkunn á bilinu 1-5 sem tók mið af því í hvaða flokki var verið að smakka. Eftir hvern bjór bar hópurinn saman bækur sínar og reyndi að ná samstöðu um einkunn bjórsins. Stundum voru menn algjörlega sammála og stundum var bilið eitthvað.

Eitt voru menn þó algjörlega sammála um. Íslensku jólabjórarnir þetta árið eru ekkert til að hrópa húrra yfir. Bjór eftir bjór kom inn á borðið sem að vaxti litla hrifningu meðal smakkara og þegar upp var staðið í flokki venjulegra bjóra var enginn bjór sem að vakið hafði verulega hrifningu. Sá bjór sem að skoraði hæst náði einungis meðaltalinu 3 í einkunn. Sem er slakari árangur en í smökkunum undanfarinna ára.

Breiddin var meiri í sérbjórunum. Þar voru nokkrar stjörnur á ferð sem að vöktu verulega hrifningu yfir línuna en líka bjórar sem að fengu falleinkunn og þegar að hulunni var svipt af þeim misstum við margir andlitið. Það er eitthvað sem er ekki í lagi í brugguninni í ár. Hvað er til dæmis að gerast með Giljagaur, sem hefur verið eitt helsta flaggskip íslenskrar bjórgerðar en er ekki svipur hjá sjón í ár?

Við munum birta heildaryfirlitið yfir smökkunina síðar um helgina þar sem að við förum yfir alla þá bjóra sem að við smökkuðum. Í flokki hefðbundinna bjóra var niðurstaðan hins vegar nokkuð skýr. Þrátt fyrir að í smökkunarhópnum væru yfirlýstir fjandmenn bockstílsins var það Einstök Doppelbock sem stóð uppi sem sigurvegari, með einkunnina 3. Þessi bjór var einn af helstu fallistunum í smökkuninni í fyrra með einhverja lægstu einkunnina en fær svo sannarlega uppreisn æru í ár. Sigurvegarinn í sínum flokki. Sá bjór sem teymið var næst sáttast við var Víking Jólabjór, sem einnig var töluvert neðarlega í fyrra. Vífilfell er því greinilega að gera ágæta hluti í ár.

Í flokki sérbjóra var keppnin harðari. Þar voru nokkuð skiptar skoðanir um hvaða bjór bæri af. Saison-bjórinn Snowball frá danska brugghúsinu To øl sem var sigurvegari ársins árin 2013 og 2014 hjá okkur kom að vanda gífurlega sterkur inn, enda ótrúlegur bjór. Hins vegar komu Skotarnir hjá Brewdog inn af miklum krafti með IPA-bjórinn Hoppy Christmas. Hann heufr áður hefur verið í efstu sætum smökkunarinnar en aldrei verið eins ferskur, skarpur og flottur og í ár. Eftir nokkrar umræður var sæst á jafntefli.

Aðrir bjórar sem einnig voru mjög sterkir í þessum flokki voru hinn danski IPA Mikkeler Hoppy Lovin Christmas og hinn belgíski ölbjór Corsendonk Christmas Ale.

En sem sagt. Við segjum nánar frá þessu öllu um helgina.

Deila.