Domaine Weinbach í Alsace er um margt einstakt vínhús. Vínræktin hófst með munkum úr Capucin-reglunni á níundu öld eða um það leyti sem að Ingólfur Arnarson nam Ísland. Munkarnir stofnuðu vínhúsið Domaine Weinbach árið 1612 og það er enn til húsa í gömlu klaustursbyggingunni. Tveir bræður úr Faller-fjölskyldunni festu kaup á Weinbach árið 1898 og sonur annars þeirra, Theo, tók seinna við rekstrinum. Þegar hann lést árið 1979 hélt eiginkona hans Colette rekstrinum áfram ásamt dætrum sínum Catherine og Laurence. Catherine lést á síðasta ári, einungis 47 ára gömul og móðir hennar Colette fyrr é þessu ári, hálfníræð. Catherine er því ein eftir af þessari merku kvenþrenningu Foller-fjölskyldunnar sem rak eitt merkasta vínhús Frakklands um árabil og heldur hún áfram uppi merkjum Weinbach ásamt syni sínum – Theo.
Þetta Riesling nefndi Colette Cuvée Theo til minningar um eiginmann sinn, það er lífrænt ræktað eins og önnur vín Domaine Weinbach. Fölgult með titrandi sítrus-ávexti í nefi, míneralískt, kamilla og krydd slæðast saman við ávöxtinn, langt, þurrt með miklli sýru.Mikið vín en samt virkilega létt á fæti. Þetta er magnaður Riesling, unaðslegur núna, en jafnframt vín sem mun lifa í mörg, mörg ár, þróast og þroskast.
4.578 krónur. Frábært vín, frábær kaup. Vín sem passar við allt gott sjávarfang.
-
10