Kveðjum 2015 með stæl…

Þá líður að áramótunum eina ferðina enn með öllum þeim hefðum sem því tilheyra. Það tengjast mismunandi hefðir áramótunum út um allan heim. Hér eru líklega flugeldar og áramótaskaup það fyrsta sem kemur upp í huga flestra. Ef eitthvað tengir hins vegar veisluhöld um áramót sameiginlegum böndum, að minnsta kosti á Vesturlöndum, þá er það sú hefð að skála fyrir liðnu ári og ekki síður nýju ári í glasi af góðu kampavíni.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir öll freyðandi vín. Þetta sýnir kannski best hversu vel markaðssetning vínbændanna í Champagne hefur tekist í gegnum aldirnar. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Champagne er hérað í norðurhluta Frakklands, austur af París og eru víngerðarsvæðin í kringum hina sögufrægu borg Reims. Þar og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði.

Hin einu sönnu kampavín koma frá Champagne í norðurhluta Frakklands á svæðinu í kringum borgina Reims. Mörg ágætis kampavín eru í boði í vínbúðunum til dæmis klassikerar frá kampavínhúsum á borð við Veuve-Clicquot og Mumm en einnig er hægt að fá vín frá smærri gæðaframleiðendum sem rækta sínar þrúgur sjálfir  s.s. Fourny.

sjomlinnKampavínin eru lúxusvara og verðið eftir því. Sem betur fer eru hins vegar einnig framleitt virkilega vönduð freyðivín víða um heim hvort sem er hjá bændunum í Bailly í næstu sveit við Champagne eða hinum megin á hnettinum í Ástralíu hjá vínhúsum á borð við Jacob’s Creek. Ítalir eru lika ansi lunknir í gerð freyðivína. Prosecco-vínin eins og þetta frá Lamberti hafa verið afskaplega mikið í tísku og svo má ekki gleyma hinu magnaða svæði Franciacorta, en eitt besta vínið sem að við smökkuðum á þessu ári var einmitt þaðan frá vínhúsinu Barone Pizzini.

Svo er auðvitað vinsælt að hafa góða kokteila í gamlárspartýinu eins og t.d. Sjomlann, áramótakokteilinn okkar. Margar fleiri hugmyndum að áramótakokteilum finnið þið hér.

Deila.