Salade Niçoise – salatið frá Nice

Salade Niçoise eða salat að hætti íbúanna í Nice er ein af sígildustu salatsamsetningum sem hægt er að finna. Hún er kennt við borgina Nice sem er stærsta borg frönsku Rívíerunnar eða Cote de Azur en salatið er hægt að finna á matseðlum flestra veitingahúsa á þessu svæði.

En þó svo að þetta sé klassískt salat er allt eins víst að það muni líta öðruvísi út í hvert skipti sem að það er pantað. Hver staður setur sitt mark á réttinn og bætir einhverju við eða dregur eitthvað frá.

Til að salat geti talist Salad Niçoise verða þó nokkrir hlutir að vera til staðar sem að gefa því bragðið sem tengist Rívíerunni. Það verða að vera stökk salatblöð, ansjósur, tómatar, hvítlaukur og svartar ólífur. Síðan má bæta við ýmsu svo sem harðsoðnum eggjum, strengjabaunum, túnfiski, hvort sem er steiktum eða úr dós, ætiþistlum, gúrkum og lauk. Stundum er jafnvel nýtt kartöflusmælki sett í salatið.

Með þessu þarf síðan að vera dressing eða vinaigrette sem byggir á ólífuolíu. Hana má t.d. gera með því að píska saman:

  • 1 dl ólífuolíu
  • 2 msk rauðvínsediki
  • 2 pressuðum hvítlauksgeirum
  • salti og pipar

Þegar þið hafið pískað dressingunni saman er tæpri lúku af fínt söxuðum graslauk og steinselju bætt við.

Gerið allt til. Sneiðið niður lauk og tómata. Sjóðið strengjabaunir og egg. Setjið í skál eða einstaka diska ásamt salatlaufunum, túnfiski og ansjósum. Hellið dressingu yfir.

Með þessu er síðan auðvitað ekkert annað hægt að bera fram en vel kælt rósavín.

Deila.