Rogan Josh – indverskur lambapottréttur

Rogan Josh er einn af þekktustu og vinsælustu réttum Indlandsog er að finna í einhverri útgáfu á flestum indverskum veitingahúsum um allan heim. Hann er yfirleitt tengdur við Kasmír-hérað en þaðan er talið að hann hafi komið frá Persíu. Það eru til nokkrar kenningar um hvað nafnið þýðir en ein er sú að orðið Rogan vísi til hins rauða litar réttarins – sem kemur úr chili og papriku – og sé af sama stofni og orðið yfir rautt á t.d. frönsku og spænsku, rouge og rojo. Þetta er tiltölulega einföld og bragðmild útgáfa.

Fyrir fjóra til sex þarf um eitt kíló af lambalæri, ef mikið er af meðlæti með dugar það alveg fyrir sex. Kjötið er skorið í teninga.

Einnig þurfum við að byrja á að saxa

 • 2 lauka

Það er notað töluvert af kryddum og þau koma í réttinn í nokkrum skömmtum. Það er ágætt að taka það allt saman til áður en hafist er handa.

Í matvinnsluvél maukum við saman:

 • 3 cm bút af engifer
 • 10 hvítlauksgeira
 • 1 dl vatn

Maukið og haldið til haga.

Þá tökum við til:

 • 10 kardimommubelgi
 • 8 negulnagla
 • 2 lárviðarlauf
 • 10 svört piparkorn
 • 1 kanilstöng

Setjið í litla skál eða bolla og haldið til haga.

Næst tökum við til:

 • 4 msk paprika
 • 2 tsk cuminn
 • 1 tsk kóríander
 • 1 tsk Cayennepipar
 • 1 tsk sjávarsalt

Setjið í litla skál eða bolla og haldið til haga.

Að lokum þurfum við að hafa tilbúið:

1 dl matarolíu

1 stóra dós af grískri jógúrt

Garam masala-krydd

salt og pipar

Það er hægt að elda réttinn á góðri pönnu en best er að gera hann í þykkum potti, helst pottjárnspotti. Hitið olíuna í pottinum, setið kjötteningana út í og brúnið þá vel. Takið kjötbitana upp úr pottinum og geymið.

Bætið fyrstu kryddblöndunni, þ.e. lárviðarlaufunum, kanilstönginni og öðru út í olíuna. Setjið því næst laukinn út í pottinn og mýkið á miðlungshita í um fimm mínútur. Þá er engifer- og hvítlauksmaukinu bætt út í og síðan seinni kryddblöndunni (paprika, cayenne…) og öllu hrært vel saman í um mínútu.

IMG_2386Bætið kjötinu aftur út í pottinn eða á pönnuna og hrærið vel saman. Setjið nú grísku jógúrtina út í, eina og eina skeið í einu og hrærið vel á milli. Látið malla í um fimm mínútur.

Setjið nú 2-3 dl af vatni í pottinn, hrærið saman og leyfið að malla á lágum hita undir loki í 45 mínútur. Takið þá lokið af og hækkið hitann aðeins. Ef eitthvað er farið að festast við botninn þarf að skafa það upp með sleifinni og blanda saman við.

Bragðið til með Garam Masala, salti og pipar og berið fram. Meðlæti með þessu eru t.d. basmati-grjón, strengjabaunir að hætti Indverja og að sjálfsögðu Raíta-jógúrtsósa. Þá er tilvalið að hafa Naan-brauð með. Það getum við gert sjálf samkvæmt þessari uppskrift hér eða r. Svo er auðvitað líka bara hægt að koma við í Hraðlestinni og kippa með Naan.

Með þessu er hægt að hafa hvort sem er hvítt eða rautt, t.d. góðan Chardonnay frá Nýja-heiminum á borð við Montes Alpha Chardonnay eða mjúkan Cabernet frá Chile eða Ástralíu.

Þið getið svo skoðað fjölmargar fleiri indveskar uppskriftir hér. 

 

Deila.