Strengjabaunir að hætti Indverja

Strengjabaunir eru ekkert einskorðaðar við evrópska eldhúsið, það má til að mynda finna margvíslegar uppskriftir frá Indlandi þar sem að þær eru notaðar, eins og þessi hér sem er frá Gujerat-héraði. Þessar baunir passa með mörgum indverskum réttum en einnig hefðbundnu grilluðu kjöti.

  • 500 g strengjabaunir
  • 4-5 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1/2-1 tsk chiliflögur
  • 1 msk sinnepsfræ
  • matarolía
  • salt og pipar

Snyrtið baunirnar með því að skera endana af þeim. Hitið vatn í potti upp að suðu og setið baunirnar í bullsjóðandi vatnið og látið þær sjóða í 3-4 mínútur. Hellið heita vatninu frá og látið kalt vatn þekja baunirnar. Hellið vatninu frá og þerrið baunirnar.

Hitið olíu á pönnu. Þegar hún fer að hitna er sinnepsfræjunum bætt út í olíuna, hálfri mínútu eða svo seinna er pressaður hvítlaukurinn settur út á og síðan chili-flögurnar. Steikið baunirnar í olíunni á tæplega miðlungshita í að minnsta kosti 5 mínútur. Saltið og piprið.

Deila.