Burro í banastuði

Svona um svipað leyti og veturinn skall af fullum þunga á landið með frosti og snjó var opnuð suðræn vin við Ingólfstorg þar sem gengið er inn í suðræna stemmningu. Í húsnæðinu sem síðustu tvo áratugi eða svo hefur hýst veitingastaðinn Einar Ben, þar sem áherslan var á íslenska stemmningu eins og nafnið gaf til kynna eru nú komnir systkinastaðirnir Burro og Pablo Discobar þar sem andrúmsloftið minnir meira á rómönsku Ameríku en Frónið.

Þrátt fyrir að nöfnin séu tvö er þetta samtengdir staðir þó svo að stemmningin sé ansi ólík á milli hæða. Á annarri hæð er veitingahúsið Burro þar sem hægt er að borða yfir sig af nútímalegum tapas-réttum og á þeirri þriðju er barinn Pablo Discobar þar sem er meiri stemmning og stuð. Vissulega hægt að fá sér kokteil fyrir matin en þarna er líka ætlunin að halda uppi gleði fram eftir nóttu.

Teymið á bak við staðinea eru þeir Gunnsteinn Helgi Maríusson og Róbert Óskar Sigurvaldason sem hafa síðustu misseri rekið einn af vinsælli stöðu Laugavegarins, gastro-pöbbinn Public House, ásamt Samúel Þór Hermannssyni. Þeir hafa fengið til liðs við sig einvalalið. Á Pablo eru tveir af bestu barþjónum landsins, Ásgeir Már Björnsson, sem áður var m.a. á Slippbarnum og Kitchen & Wine, og Aðalsteinn Bjarni Sigurðsson, sem áður var á Kol á Skólavörðustíg en báðir hafa þeir unnið til fjölda verðlauna á sínu sviði.

Í eldhúsinu eru síðan auk eigenda þekktir matreiðslumenn á borð við Theodór Dreka Árnason, sem hefur starfað á stöðum á borð við Apótekið og Bretinn Mark Morrans, sem starfað hefur á stöðum á borð við Nobu og vinnur með teyminu að því að þróa matargerðina áfram.

Réttirnir á matseðlinum er klassískir tapas-réttir að stærð, það þarf kannski 3-4 rétti á mann til að metta og það er tilvalið að fá þá sem flesta rétti á borðið og deila. Matargerðin sækir mikið til Suður-Ameríku og þá ekki síst eins og matargerð þaðan hefur verið að þróast á vinsælum stöðum í bandarískum stórborgum á borð við New York. Við erum að tala meira um „latin tapas“ en klassískt spænskt tapas. Þetta er stíll sem við höfum ekki séð mikið af hér þótt sumt minni á það sem var í gangi á veitingahúsinu Cava á Laugaveginum fyrir nokkrum árum. Einstaka sinnum dettur eldhús í froðurnar sem öllu hafa verið að kollkeyra á veitingahúsum borgarinnar en yfirleitt heldur þó staðurinn sínum flotta striki og er ekkert að hika við að fara út fyrir hinn hefðbundna þægindaramma. Padon-chilibelgir voru til að mynda alveg hreint ljómandi fínir, steiktir í tequila og kóríander, kröftugir og sterkir. Heimatilbúnar tortilla-pönnukökur eru undirstaðan í nokkrum réttum, ofan á þeim hægt að fá bæði tofu-„kjúkling“ og alvöru kjúkling með flottu mole, dökkri mexíkóskri sósu með chili og fjölmörgum kryddum, sem gerð er á staðnum. Mole kemur raunar víða og í margvíslegum myndum, stundum blandað við majónnes, sem er ekki slæmt. Það ættu allir að prófa chicharon eða djúpsteikta svínafitu með mole. Alvöru stöff.

Ceviche-réttirnir, svo sem bleikja eða hörpufiskur eru svo miklu léttari og ferskari en köldu réttirnir eru gerðir á köldum matarbar í öðrum matsalnum. Það er svo tilvalið að fá sér nautalund með chimicurro eða bbq-lambasíðu.

Vínlistinn er góður með úrvali frá Suður-Ameríku en ekki síður gömlu víngerðarlöndunum Frakklandi, Ítalíu og Spáni.

Þetta er skemmtileg viðbót, öðruvísi og líflegur staður sem vafalítið á eftir að verða fyrirferðarmikill. Hönnunin er íburðarmikil djörf og litrík en hún var í höndum Hálfdáns Pedersen, sem m.a. hannaði Kex. Oft er húmorinn ekki langt undan, rétt eins og í nafninu Pablo Discobar og víða smáatriði sem vert er að gefa gaum.

Deila.