Hin magnaða Porto

Porto hefur ekki verið mikið inni á radarnum hjá íslenskum ferðamönnum sem halda til Portúgal. Flestir sem þangað fara halda til sólarstrandanna syðst í landinu og þeir sem fara í borgarferðir horfa fyrst og fremst til höfuðborgarinnar Lissabon. Þessi borg hefur hins vegar upp á ótrúlega margt að bjóða, mikla sögu, fallega og einstaka götumynd, frábær veitingahús og svo eitthvert fegursta vínhérað veraldar í næsta nágrenni, Douro-dalinn.

Fljótið Douro setur einmitt sterkan svip á Porto og skilur hana og tvíburaborgina Vila Nova de Gaia að. Á hæðunum upp af árbakkanum hafa þessar borgir byggst upp í gegnum aldirnar en þeir tengjast með stórkostlega fallegum brúm sem voru hannaðar jafnt af Gustave Eifel sem lærisveinum hans.

Gamli bærinn eða Baixa sem teygir sig niður brekkurnar að bakka Douro, svæðinu sem nefnist Ribeira, einkennist af litríkum húsum, barokk-kirkjum og art nouveau höllum, það er engin furða að UNESCO skuli hafa sett gamla bæinn á heimsminjaskrá sína fyrir tuttugu árum. Sú skráning nær einnig til tunnuskála portvínshúsanna hinum við Douro í Vila Nova og járnbrúarinnar Ponte de Dom Luis sem hönnuð var af einum lærisveina Eifels (brúin sem Eifel sjálfur hannaði er aðeins ofar á Douro).

Þarna er eitthvað fyrir alla. Til dæmis má nefna að það var á þessum slóðum sem að J.K. Rowling byrjaði að rita bækurnar um Harry Potter á meðan hún starfaði sem enskukennari  þarna 1991-1993. Fyrir áhugafólk um Potter býður Porto upp á fjölmarga staði sem endurspeglast í bókunum, ekki síst þeirri fyrstu, t.d. bókabúðina Livraria Lello sem er fyrirmyndin að bókasafninu í Hogwarts. Á sömu slóðum má líka finna matarmarkaðinn Mercado do Bolhao fyrir þá sem eru meira áhugsamir um matarmenningu en Harry Potter-menningu og eitt besta bakarí borgarinnar Confeitaria do Bolhao. Og svo auðvitað Cafe Majestic sem er eitt elstu og virðulegustu kaffihúsum/veitingastöðum Porto. Þarna sat Rowling löngum og glósaði hugmyndir sínar að Potter-sögunum. Og það er skylda að fá sér Franceshina sem er samloka með kjöti, pylsu, osti og ég veit ekki hverju í flottri sósu er slær flestu við.

En Porto er ekki bara árborg heldur líka strandborg. Það er 20-30 mínútna göngutúr meðfram ánni frá miðborginni að ármynni Douro þar sem hún sameinast Atlantshafinu. Þar í kring er líka að finna eftirósttasta hverfi Porto, Foz do Douro. Afskaplega falleg strandlengja þar sem hægt er að njóta sólar stóran hluta ársins, fá sér að borða á trendí veitingastöðum eða fylgjast með mannlífinu, þarna búa stjörnur borgarinnar, m.a. flestir af þekktustu leikmönnum knattspyrnuliðsins Porto.

Sé gengið eða ekið í norður meðfram ströndinni kemur maður brátt að hafnarbænum Matosinhos þar sem er að finna ógrynni af sjávarréttarstöðum, vel á annað hundrað.  Einn af bestu veitingastöðum Porto, O Gaveto, sem þar er að finna,  ber ekki mikið yfir sér.  O Gaveto er goðsögn og hafa margir af helstu matarsérfræðingum heims (t.d. í Financial Times og Wine Advocate) lýst því yfir að þetta sé besti sjávarréttastaður veraldar.  Staðurinn verið rekinn frá því á sjöunda áratugnum af Silva fjölskyldunni og nú eru það bræðurnir José og Joao Silva sem fara með stjórn. Að utan mætti halda að um hverfisknæpu væri að ræða og það er ekki margt fyrir innan sem gefur til kynna hvers konar staður þetta er, innréttingar hafa verið óbreyttar frá uppafi.

Maturinn er einfaldur en ævintýralega góður, hráefnin ótrúleg. Við byrjuðum á litlum rækjum og svo Percebes sem eru skeldýr eða hrúðurkarlar sem vaxa á klettunum við norvesturströnd Íberiuskagans. Furðulegir í útliti en þvílíkt góðir. Þetta er eftirsótt sjávarfang sem kafarar sækja oft við hrikalegar aðstæður. Þá næst skeljar með ólífuolíu, sítrónu og kóríander. Skeljarnar soðnar í olíu og vatni til helminga og mynda unaðslega sósu sem sítrónu, hvítlauk og kóríander er bætt út í í lokin. Síðan grillaður hafbarri (seabass), borinn fram á einfaldan hátt með grænmeti, kartöflum og ólífuolíu en engu að síður fullkominn.

Joao er ekki lengi að koma því á framfæri að besti saltfiskurinn komi frá Íslandi og bætir við að hann hafi einmitt verið að panta nokkra kassa líkt og hann geri alltaf fyrir jólin en Portúgalar borða einstaklega mikið af saltfiski fyrir jólin. Annar sérstakur jólaréttur sem þeir Silva-bræður bjóða upp á fyrir hátíðarnar er hringmunni ílangur fiskur sem lítur út eins og eitthvað frá steinöld með hringlaga, kjálkalausan og flatan haus. Undarlegt kvikindi með rautt blóð sem er eldaður í eins konar stöppu ásamt blóðinu. Ok… við eigum okkar skötu.

Vínlistin á O Gaveto er algjörlega frábær og engin tilviljun að þetta er sá staður sem að öll vínhús svæðisins nota hvað mest. Þarna eru öll helstu vín landsins fáanleg, oft margir árgangar og kosta oftar en ekki minna en út úr búð.  Það er hægt að fá virkilega fín vín frá tíu evrum flöskuna og stórkostleg vín, sum þau bestu sem Portúgal hefur upp á að bjóða á um tíu þúsund íslenskar.

Af öðrum stöðum í Porto sem nauðsynlegt er að prófa er Vinum. Hann er hluti af Graham‘s Lodge 1890 eða tunnuskála Graham‘s portvínshússin. Þar er hægt að koma og skoða hvernig portvínin verða til og smakka stórkostleg flestar tegundir portvína en Graham‘s Lodge hefur verið valið sem einn af bestu vínferðamannastöðum veraldar. Þar er líka að finna fyrrnefndan veitingastað, Vinum og hægt að velja um sæti inni með útsýni inni í tunnuskálan eða yfir Douro og tvíburaborgirnar Vila Nova og Porto. Eitthvert besta útsýni bæjarins og maturinn er frábær. Staðurinn sérhæfir sig auðvitað í góðum vínum frá Douro og portvínum en líka í grilluðum kjöti og þá engu venjulegu heldur kjöti sem er vel og lengi alið og vel, vel hangið. Um það leyti sem við heimsóttum Vinum í desember var boðið upp á uxa sem var algjörlega magnaður. Þetta er gömul portúgölsk matarhefð og notaðir eru uxar sem eru í það minnsta 13 ára gamlir og 1.300 kiló að þyngd, kjötið látið hanga í um mánuð. Eitthvert stórkostlegasta nautakjöt sem ég hef fengið, bragðmikið og magnað.

Það er því miður ekki flogið beint til Porto en flug þangað eru tíð og ódýr frá t.d. London.

Hótel sem að Vínótekið mælir sérstaklega með eru Hotel Teatro, frábært boutique-hótel í gömlu miðborginni, Hotel Yetman í Vila Nova de Gaia sem sérhæfir sig í öllu víntengdu, með frábæran veitingastað og bar og Hotel Carris Porto Ribeira, nútímalegt og þægilegt hótel rétt við bakka Douro.

Deila.