Flaggskipin frá Víking

Það má með sanni segja að Craft lína Víkings sé rótgróin á Íslandi. Stoutinn þeirra var sá fyrsti til að veita nýstofnuðu örbrugghúsunum Ölvisholti og Kalda samkeppni fyrir tæpum 10 árum. Mikið hefur runnið til sjávar síðan og Craft lína þeirra (áður Úrvals lína) stækkað mikið.
Flaggskip línunnar eru tveir bjórar. Fyrrnefndur Stout og White Ale.
Stoutinn þeirra fylgir breskri hefð. Er ekki sérlega fyrirferðarmikill í áfengi en engu að síður bragðmikill. Ristað malt og örlitlir kaffitónar einkenna bragð og má segja að hér sé hinn fínasti bjór miðað við verð og útbreiðslu á börum bæjarins. Hann hefur staðist tímans tönn og hafa vinsældir hans haldið sér frá því að hann var kynntur til sögunnar.
White Ale er tiltölulega nýr af nálinni. Líklegast eru Víking menn að fylgja eftir vinsældum Einstök White Ale sem hefur verið mjög vinsæll á undanförnum árum. Hann fylgir belgískum bræðrum sínum ágætlega eftir. Kóríander og sítrónutónar eru áberandi, hann er mjög léttur með minni háttar beiskju og fyllir þá kröfu að vera mjög svalandi.
Báðir þessir bjórar eru hinir fínustu og eru ágætis sýnishorn af báðum bjórstílum. Það má samt vona að Craft lína Víking fari að horfa meira vestur um haf heldur en í hina hefbundnu evrópsku en þangað til nægir þetta og gott betur.
Deila.