Jólabjórar frá Ölvisholti

Sala á jólabjór er hafin og sem áður hefur hún farið gríðarlega vel af stað. Ölvisholt hefur verið áberandi í jólabjórs flórunni undanfarin ár og gefa ekkert eftir þetta árið. Alls senda þeir frá sér þrjá bjóra, einn svo kallaður vetrarbjór og tvo jólabjóra.

„Heims um bjór“ kom fyrst út fyrir ári. Talsvert kryddaður en í ár hefur örlítið verið átt við hann til að koma með meira jafnvægi. Það hefur tekist með ágætum og er þetta hinn fínasti jólabjór. Þrátt fyrir ávaxtakeim frá humlum er talsvert mikið malt á ferðinni og kryddaðir undirtónar sem kalla á síld og annað jóla meðlæti. Flottur jólabjór hér á ferð.

„24“ er Barley wine. Stór og mikill bjór, með mikla beiskju og talsverða sætu. Þetta er einnig í annað sinn sem þessi bjór kemur en hann seldist hratt upp í fyrra. Þetta er bjór fyrir lengra komna, til að setja með í glasi og sötra í rólegheitum. Hann er flott dæmi um „barley wine“ bjórstílinn og mun eflaust eignast marga aðdáendur.

„Hel“ er síðan vetrarbjórinn, porter með 7% áfengiprósentu. Tiltölulega léttur engu að síður, talsverð sæta og malttónar. Skemmtilegur vetrarbjór.

Eins og með marga aðra jólabjóra eru birgðir takmarkaðar og mælir Vínotek með að smakka þessa flottu jólabjóra frá Ölvisholti!

Deila.