Apótekið parar kokteila og mat í tilefni Reykjavík Cocktail Weekend

Reykjavík Cocktail Weekend er orðinn árlegur viðburður í dagatalinu og fer í gang með látum í dag. Sumir staðir hafa jafnvel aðeins „þjófstartað“ og er Apótekið Restaurant byrjað að bjóða upp á sérstakan seðil í tilefni helgarinnar þar sem barþjónar og matreiðslumenn hafa parað saman fjóra rétti með fjórum kokteilum með lystilegum hætti.

Það er ekki sjálfgefið að kokteilar parist vel með mat en það verður að segjast eins og er að það hefur tekist ansi vel til á Apótekinu. Beefeater gin er í aðalhlutverki í öllum kokteilunum en Jónmundur Þorsteinsson barþjónn á Apótekinu var einmitt sigurvegari í BeefeaterMIXLDN-keppninni sem fram fór í lok nóvember og verður fyrsti fulltrúi Íslands á úrslitamóti keppninnar, sem að þessu sinni fer fram í London. Sigurdrykkur hans sem ber heitið Laugardalur er einmitt einn af kokteilunum sem að í boði eru á seðlinum og er parað saman við lambatartar með steiktum rauðlauk og reyktum rjómaosti. Ekki síðri samsetning er hægelduð bleikja með  yusu og trufflumajonnesi og kokteillinn Dillagin, en eins og nafnið gefur til kynna spilar dill þar ríka rullu. Blómkál á tvo vegu ásamt rauðbeðum, súrdeigskexi og möndlum er parað við ferskan ginkampavínskokteil, Apotek French. Og ekki má svo gleyma einum frumlegasta réttinum og samsetningunni, reyktum og grilluðum kolkrabba á avókado og chipotle með klassískum Negroni.

Réttur ásamt kokteil kostar 3.790 krónur en kokteill einn og sér er á 1.990 krónur þessa helgi.

Deila.