Leynistaður Þráins

Það kann að hljóma ólíklega en á einhverjum forvitnilegasta veitingastað landsins er eldað í áratugagömlu eldhúsi á IKEA-eldavél. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Staðurinn heitir Óx og með tilkomu hans rættist langþráður draumur Þráins Freys Vigfússonar um að ná sömu nánd við viðskiptvinina og hann hafði kynnst í veiðihúsinu í Kjarrá.

Þráinn er enginn nýgræðingur, hann hefur verið matreiðslumaður á Grillinu, Bláa lóninu og Kolabrautinni áður en hann opnaði sinn eigin stað, Sumac, á Laugavegi í fyrra. Það er áratugur síðan að hann hreppti titilinn matreiðslumaður ársins og hann keppti á Bocuse d‘Or í Frakklandi árið 2010.

Hugmyndin að litla veitingastaðnum þar sem að hann nær sambandi við gestina hefur hins vegar blundað í honum í meira en áratug. Óx er í rými inn af Sumac og þar geta allt að ellefu gestir setið við barborð í kringum eldhúsið þar sem Þráinn og samstarfsmenn hans setja saman þrettán rétta máltíð fyrir gesti. Innréttingin var smíðuð af afa Þráins árið 1961 fyrir bæinn Hlíðarholt í Staðarsveit þar sem Þráinn var í sveit sem barn. Þar segist hann sem lítill snáði fyrst hafa fengið þá hugmynd að verða kokkur er hann fór með ömmu sinni á Búðir og kíkti með henni inn í eldhús til Rúnars Marvinssonar og félaga sem þá voru þar við stjórn.

Óx nýtur góðs af sambýlinu við Sumac og nýtir sér prepp-eldhúsið, grillið og fleira á þeim stað til að undirbúa máltíðina. Máltíðin er síðan eins og náið matarboð. Gestir mæta stundvíslega klukkan sjö og þá tekur á móti þeim fordrykkur áður en fyrstu réttirnir eru bornir fram á slaginu 19.15. Máltíðin hefst á nokkrum smáréttum sem koma með stuttu millibili áður en hægir aðeins á fyrir aðalréttina og loks eftirrétti.  Alls tekur máltíðin um tvær og hálfa klukkustund og í lok hennar eru gestir, sem oftast þekkja lítil deili á borðfélögum sínum í upphafi yfirleitt komnir í hrókasamræður.

Matargerðin er mjög frábrugðin þeirri á Sumac þar sem réttirnir eru í fusion stíl og sækja mikið til Maghreb-svæðisins. Óx er hins vegar mun íslenskari og evrópskari. Þráinn segir Óx verða með ákveðna grunnrétti sem oft verða í boði svo sem laufabrauð með taðreyktu hangikjöti og sviðasulturétt. Þarna verða því þjóðlegir réttir þó svo að þeir taki ekki yfir allan seðilinn.

Einungis er hægt að panta borð á netinu á heimasíðu Óx og staðurinn verður ekkert auglýstur, engar merkingar gefa til kynna hvar hann er og hann verður ekki settur inn á síður á borð við Trip Advisor, að minnsta kosti ekki að frumkvæði aðstandenda. Þetta á að vera smá „leynistaður“ segir Þráinn enn hann verður í eldhúsinu ásamt þeim Hafsteini Ólafssyni og Georg Arnari Halldórssyni en vínþjónninn Hróðmar Eydal sér um að para vín við réttina.

Deila.