Petit Clos by Clos Henri Sauvignon Blanc 2016

Það er alltaf forvitnilegt að smakka vín sem að góðir víngerðarmenn gera utan heimaslóðanna þar sem að þeir takast á við aðrar aðstæður en einkenna þau vín sem þeir eru þekktir fyrir. Heimaslóðir vínhússins Henri Bourgeois eru í Sancerre í Loire-dalnum í Frakklandi en hér vín frá vínhúsi þeirra á Nýja-Sjálandi en þar, nánar tiltekið í Wayrau-dalnum í Marlborough, fjárfesti fjölskyldan í 100 hektara landi og gróðursetti Sauvignon Blanc og Pinot Noir-vínvið sem ræktaður er með lífrænum aðferðum.

Þetta er spennandi og heillandi vín, stílinn óneitanlega franskur en með nýsjálenskri dýpt og birtu í ávextinum. Fölgult á lit og angan sem er í senn grösug, míneralísk og með suðrænum ávexti, lime og greipávöxtur í bland við ástaraldin, mjög ferskt og þétt í munni, míneralískt með þægilegri seltu sem rúnnar vínið af. Yndislegt.

 

90%

2.799 krónur. Magnað og spennandi vín fyrir það verð. Með grilluðum fiski og sjávarréttum með lime og sítrónu.

  • 9
Deila.