Chateau Trianon 2015

Chateau Trianon er Bordeaux-vín sem við erum nú að sjá í fyrsta skipti í vínbúðunum og það er full ástæða til að gefa því gaum. Þótt Trianon sé ekki með þekktari vínum Bordeaux sem stendur þá er þetta vín sem vafalítið á eftir að láta töluvert að sér kveða. Maðurinn á bak við Trianon er nefnilega enginn annar en Dominique Hebrard en Hebrard fjölskyldan átti og rak um langt skeið eitt þekktasta vínhús veraldar, Chateau Cheval-Blanc í Saint-Emilion. Í kjölfar þess að fjölskyldan seldi Cheval Blanc ákvað Hebrard að hefja leikinn á ný og hefur komið að nokkrum spennandi vínhúsum á síðustu árum eins og lesa má um í spjalli sem að við áttum við hann fyrir nokkru. 

Hebrard hefur mikinn metnað fyrir Trianon og það verður að segjast eins og er að þetta er magnað vín sem getur keppt við töluvert dýrari vín af svæðinu. 2015 var auðvitað einstaklega góður árgangur og það skín hér í gegn, vínið er dökkt, dimmrautt á lit með örlítið kryddaðri angan af dökkum ávexti, sætum bláberjum, plómum og kirsuberjum, mildir súkkulaðitónar og örlítill lakkrís, sætur viður sem umleikur vínið. Það hefur góða fyllingu í munni, mjúkt og þægilegt, hér er það Merlot sem ræður ferðinni en ekki Cabernet, mjög aðgengilegt nú þegar en mun endast í all nokkur ár til viðbótar.

100%

4.977 krónur. Frábær kaup. Vín til að fylgjast með! Reynið með góðri nautalund eða wellington.

  • 10
Deila.