La Chablisienne 1er Cru Fourchaume 2016

Fourchaume er ein af þekktustu premier cru ekrunum í Chablis. Ekran er staðsett rétt norður af sjálfu þorpinu Chablis, snýr beint í suður og jarðvegurinn einkennist af miklum kalksteini. Suðurlegan gefur þrúgunum meiri sól sem endurspeglast í kraftmiklum vínum sem ná þó yfirleitt að halda í skerpuna og fínleikann sem einkennist bestu Chablis-vínin.

2016 var erfitt ár fyrir vínræktendur í Chablis. Snemma vors þegar vínviðurinn var kominn af stað tók að frysta og þegar leið á vorið ullu haglél miklum skemmdum. Uppskeran varð því töluvert umfangsminni hjá flestum húsum en venja en gæði vínanna eru hins vegar ágæt, ekki síst þökk sé einstakleg heitum og sólríkum ágúst og september.

Þetta Fourchaume frá Chablisienne er enn mjög ungt, liturinn ljósgulur og angan af sætum og þroskuðum eplum, sítrus, jafnvel lemon curd, sætt púður, töluvert míneralískt,  þykkt og ferskt. Það hefur góða skerpu í munni, er fókuserað með fínni sýru og mildri, þægilegri seltu.

90%

4.199 krónur. Frábær kaup. Það eru vart til betri vín fyrir peninginn með góðu sjávarfangi en vandaður Chablis. Flott með til dæmis humri.

  • 9
Deila.