Bodegas Escorihuela er með elstu vínhúsum Mendoza í Argentínu en það var stofnað ári 1884 af Miguel Escorihuela sem nokkrum árum áður hafði flust frá Aragon á Spáni til Argentínu. Esorihuela var eitt af fyrstu vínhúsunum til að framleiða hreint Malbec-vín á þessum slóðum og meðal aðdáenda vínanna var forseti Argentínu Juan Peron, en þetta vín, President’s Blend er einmitt tileinkað honum. Fyrir um aldarfjórðungi eða svo keypti ein þekktasta vínfjölskylda Argentínu, Catena-fjölskyldan vínhúsið.
1884 President’s Blend, sem er blanda úr þrúgunum Malbec (85%), Cabernet Sauvignon (10%) og Syrah (5%) er massivt og mikið vín, dimmrautt út í fjólublátt á lit með kröftugri angan af sólberjum, krækiberjum og plómum, ávöxturinn heitur og sultukenndur, rennur saman við mikla vanillu og krydd, kanil, pipar, dökkristaðar kaffibaunir, aflmikið í munni en samt mjúkt og heitt, með sætum og feitum ávexti og silkimjúkum tannínum. Umhellist.
4.735 krónur. Frábær kaup. Þetta er topp-Malbec og á fínu verði sem slíkur. Með stórsteikunum.
-
10