Marberg ginið mætir til leiks

Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að það hefur átt sér stað sannkölluð bylting í bjórmálum hér á landi með fjölmörgum spennandi „craft“-brugghúsum sem hafa skotið upp kollinum víða um land. Önnur bylting hefur hins vegar verið öllu hljóðlátari en er engu að síður að opna nýjar víddir þegar kemur að íslenskri áfengisframleiðslu. Þau er orðin all nokkur litlu „craft“-eimingarhúsin sem hafa verið að þróa vörur sínar á undanförnum árum og líklega er þetta nú orðinn um tugur fyrirtækja sem framleiðir íslenskt gin, ákavíti og jafnvel viský.

Ginið Marberg frá Þoran Distillery er eitt hið nýjasta á markaðnum, það fór að koma á bari nú í byrjun ársins en sagan á bak við það er engu að síður farin að spanna áratuginn eða svo. Birgir Már Sigurðsson er maðurinn á bak við Þoran og það var undir lok síðsta áratugar sem að hann fór að gæla við þá hugmynd að framleiða íslenskt viský. Birgir er grafískur hönnuður og hugmyndin vaknaði er hann vann hugmyndaverkefni hjá Listaháskólanum er byggði á kynningu fyrir ímyndað íslenskt viský. Þar með varð ekki aftur snúið.  Hann hóf undirbúninginn með því að heimsækja fjölmörg af viskýhúsum Skotlands og vann m.a. um skeið hjá Higland Park á Orkneyjum, einu þekktasta viskýhúsi Skotlands.

Næstu ár fóru í margs konar tilraunir og þróun og verkefni á vegum Start Up Reykjavík og styrkur frá Matís urðu til að fleyta því töluvert áfram af hugmyndastiginu. Með aðstoð frá Matís vann Birgir að því að þróa fram margvíslega þætti framleiðslunnar, s.s. varðandi byggnotkun og annað.

Nú er Þoran löngu komið af hugmyndastiginu og hefur komið sér vel fyrir í glæsilegu húsnæði í Hafnarfirði þar sem settar hafa verið upp fullkomin eimingartæki frá þýska framleiðandanum Muller í Oberkirch-Tiergarten. Búnaðurinn er þannig samsettur að hann getur eimað jafnt ljóst áfengi á borð við gin sem viský.

En þó að grunnurinn að Þoran sé viský er enn eitthvað í að við fáum að sjá fyrsta viskýið frá þeim á almennum markaði. Við smökkuðum hins vegar sýnishorn af því sem verið að er að þróa fram og verður að segjast eins og er að það kom verulega á óvart, þetta er alvöru stöff sem þarna er að fæðast.

En þangað til mun Marberg ginið eiga sviðið. Þetta er klassískt London Dry gin – en um þennan klassíska stíl hefur verið settur skýr reglurammi sem verður að uppfylla ef gin ætlar að kalla sig London Dry. Það má til dæmis ekki bæta við neinum sætu eða litarefnum, einungis má nota náttúruleg bragðefni og þeim má ekki bæta við eftir eimingu. Einiber eru alltaf ríkjandi í London Dry-stílnum en sítrus er yfirleitt einnig til staðar og það á svo sannarlega við um Marberg þar sem sítrusinn er nokkuð áberandi og heildaryfirbragðið er mjúkt, þurrt og ávaxtaríkt. Skrambi gott gin í hinar klassísku blöndur. Auk einiberja og sítrus er þarna að finna íslenska hvannarót, svartan pipar og söl.

Í tilefni af því að Marberg er orðið að veruleika ætlar Þoran að halda opinn dag fyrir fagfólk, þ.e. þjóna, veitingamenn, veitingastjóra, barþjóna og annað fagfólk þar sem framleiðslan verður kynnt ásamt nokkrum frumsömdum kokteilum.

Opni dagurinn verður haldinn dagana 5. og 6. mars í húsnæði Þoran að Suðurhellu 8 í Hafnarfirði kl. 16-19.

 

Deila.