Fortius Reserva 2010

Spænska vínhéraðið Navarra er rétt suður af Rioja og er ávallt svolítið í skugganum af hinum fræga nágranna. Það breytir því ekki að vínin frá Navarra geta verið ansi hreint frambærileg og oftar en ekki má finna þar verulega góð kaup. Fortius-vínin eru framleidd af vínhúsinu Bodegas Valcarlos sem er í eigu Faustino í Rioja og þetta eru vín sem eiga margt sameiginlegt með Rioja-vínunum í stílnum. Reserva 2010 frá Fortius er farið að sýna smá þroska í litnum, í nefinu dökkrauð ber, heit og þroskuð, skógarber og kirsuber, eikin gefur vanillu, sæta og kryddaða tóna, brenndur viður, ágætis tannín, mjúk og þykk, þykkt og smá míneralískt í lokin.

2.398 krónur. Frábær kaup. Með nauti en ekki síst lambakjöti, t.d. grilluðum kótilettum.

  • 8
Deila.