Hallgerður – geggjað flæmskt súröl frá Borg

Borg Brugghús hafa verið í miklum ham núna seinni part vetrar og gefið út hvern tunnuþroskaða súrbjórinn á fætur öðrum. Rauðhetta og Úlfurinn, Rebekka og Esja hafa ratað á betri bari bæjarins og hillur ÁTVR en þetta er nýjung frá Borg að bjóða uppá lifandi súröl sem hefur verið geymt lengi á viðartunnum.

Sá nýjasti eða nýjasta öllu heldur er Hallgerður. Hallgerður er svokallað flæmskt súröl og á því ættir að rekja til Belgíu. Hér leikur gerið aðalhutverkið til að búa til frábæran súran karakter en einnig er að finna miklar tóna frá kirsuberjum og eikartunnunum en Hallgerður hefur verið bæði í Chardonnay og Banyuls tunnum en Banuyl er franskt desertvín frá Rousillon í suður Frakklandi.

Hallgerður er einn vandaðasti bjór Borgar til þessa og afar gaman að sjá íslenskt brugghús feta í fótspor svo margra utan landsteinana með tunnuþroskuðum súrbjórum.

Það tekur varla að segja en Hallgerður fær full meðmæli frá Vinotek.

Deila.