King Kong frá Malbygg – óaðfinnanleg snilld.

Brugghúsið Malbygg í Reykjavík hefur verið í gríðarlegri sókn á undanförnum mánuðum. Bjórar þeirra seljast hratt upp í vínbúðum landsins þegar þeir mæta í hillurnar og einnig hafa þeir verið duglegir við að senda frá sér sérbjóra.

Einn sérbjórinn í viðbót bættist við flóruna núna í vikunni en King Kong Imperial Stout mætti eins og þruma úr heiðskýru lofti í hillur ÁTVR í vikunni. Miðinn er listaverk eins og aðrir miðar frá Malbygg og erfitt er að taka ekki eftir 750ml flöskunni með hvíta vaxinu.

King Kong er Imperial Stout með vanillu baunum sem geymdur hefur verið í bourbon tunnum. Þetta er ekki fyrsti Malbygg bjórinn sem kemur úr bourbon tunnum en í kringum bjórhátíð Kex voru þeir með snilldina Brewhaha á boðstólum. King Kong gefur Brewhaha ekkert eftir. Hann er silkimjúkur með angan af vanillu, kaffi og örlítilli rist. Það má segja að Malbygg hafi sett ákveðin „standard“ með Brewhaha og King Kong heldur áfram á þeim línum og að mati okkar er nánast betri þótt erfitt sé að toppa Brewhaha.

Við mælum með að lesendur tryggi sér flösku enda ákaflega takmarkað framboð.

Deila.