Cloudy Bay Sauvignon Blanc 2018

Sauvignon Blanc frá Nýja-Sjálandi þarf ekkert að sanna sig lengur, víngerðarmenn þar hafa fyrir löngu sýnt og sannað að aðstæður, ekki síst í Marlborough eiga einstaklega vel við þessa þrúgu sem lengi vel var fyrst og fremst tengd við Loire-dalinn í Frakklandi. Það var Cloudy Bay sem upphaflega kom nýsjálensku vínunum á kortið alþjóðlega og þetta vín er enn með betri Sauvignon Blanc-vínum sem að maður rekst á og þá ekki bara frá Nýja-Sjálandi.

2018-árgangurinn er nú kominn í búðirnar og þetta er hörkuvín. Liturinn ljós með fölgrænum tónum og í nefi massavís af suðrænum og ferskum ávexti, töluverður sítrus, ekki síst lime og greip en líka angan af sætu og þroskuðu ástaraldini og mangó ásamt grænari tónum. Það er fínlegt, ferskt, hefur góða lengd og dýpt í bragðinu.

90%

4.199 kronur. Frábær kaup. Þetta er mikið vín, fínt með humar og öðrum skelfiski, betri fiskréttum og jafnvel hvítu kjöti.

  • 9
Deila.