Tenute Lunelli Alliotto 2015

Lunelli-fjölskyldan framleiðir eitt þekktasta og besta freyðivin Ítalíu, sem ber heitið Ferrari og er gert í Trento á Norður-Ítalíu. Hún hefur hins vegar einnig verið að færa út kvíarnar með Tenute Lunelli sem eru vínhús (tenute er auðvitað fleirtalan af tenuta eða búgarður) sem framleiðir vín frá þremur vínhéruðum á Ítalíu, Trento, Toskana og Úmbríu.

Alliotto er Toskana-vínið frá Lunelli, það er framleitt undir skilgreiningunni IGT Toscana, á búgarðinum Tenuta Podernovo. Þetta er fyrsti Lunelli-búgarðurinn sem fékk lífræna vottun og  blandan er Sangiovese (60%), Cabernet Sauvignon og Merlot.

Vínið er dökkrautt og þroskuð kirsuber og plómur mæta manni strax, eikin er nokkuð framarlega, mild vanilla, þarna er líka leður og jörð, míneralískt. Tannín hafa enn smá bit og þarna er líka fersk sýra, ágætlega þéttur og fínn ávöxtur.

80%

2.490 krónur. Frábær kaup. Með bragðmiklum pastakjötsósum.

  • 8
Deila.