Innlit í Microbar & Brew í Kópavogi

Á dögunum fékk Vínotek að kíkja á hið splunkunýja brugghús Gæðings á Nýbýlavegi þar sem öll starfsemi Gæðings fer fram en landsmenn tengja líklegast brugghúsið við Skagafjörð þar sem það var frá því það var opnað árið 2011.

Stofnandi brugghúsins, Árni Hafstað, tók á móti okkur glaður í bragði og leiddi okkur um húsnæðið. Á staðnum er bæði bar og öll starfsemi Gæðings. Barinn er snyrtilegur og nútímalegur og brugghúsið sjálft hreint og fallegt.

Gæðingur hefur fetað ótroðnar slóðir í gegnum tíðina og oft á tíðum verið fyrsta brugghúsið á landinu til að tileinka sér nýjungar. Fyrsti „skyrbjórinn“ var Gæðingur sem hét Skyrgosi og var bruggaður fyrst 2015 og í dag má segja að súrbjór bruggaður með skyri sé alíslenskt fyrirbæri sem flest íslensk brugghús hafa bruggað við góðan orðstír.

Þegar þetta er skrifað er mikið að gerast hjá Gæðing. Nú er ný afstaðið tap takeover frá Lone Pine brugghúsinu frá Maine á MicroBar og bjórhátíð Brothers Brewery í Vestmannaeyjum er í gangi þessa helgi en að sjálfsögðu verður Gæðingur eitt af brugghúsunum sem munu bjóða upp á bjór á hátíðinni. Þegar við litum inn var einmitt samvinnubjór Lone Pine og Gæðings að gerjast sem heitir Lone Rider og er nýkominn í ÁTVR. Hann er tiltölulega léttur en mikil humlasprengja. Mælum við með að tryggja sér dósir áður en hann selst upp en upplagið er afar takmarkað.

Það er gaman að sjá bjór menninguna á höfuðborgarsvæðinu eflast og sjá fleiri „taproom“ opna en Microbar í Kópavogi er einmitt eitt slíkt þar sem hægt er að sötra bjór og fylgjast með gerjunartönkunum með hverjum sopanum.

Það var gaman á sínum tíma að heimsækja Gæðing í Útvík en tímarnir breytast og mennirnir með. Það fengur fyrir bjóráhugamenn á höfuðborgarsvæðinu að fá Gæðing á svæðið. Mælum við að sjálfsögðu með innliti í þetta skemmilega brugghús.

Deila.