Moussaka – ketóvænt

Moussaka er klassískur grískur réttur, eins konar „lasagna“ þar sem að eggaldin kemur í staðinn fyrir pastaplöturnar. Þar af leiðandi er líka mjög einfalt að breyta moussaka í rétt sem að vel má njóta á lágkolvetna eða keto-mataræði – með því einfaldlega að skipta út hvítu béchamel-sósunni sem yfirleitt myndar efsta lagið og nota þess í stað sósu er byggir á eggjum, mascarpone og rjóma.

Uppskriftin er fyrir 4-6.

Kjötsósan

 • 500 g hakk, nautahakk eða lambahakk
 • 1 laukur, saxaður
 • 1 dós tómatar eða flaska af tómata-passata
 • óregano
 • salt og pipar
 • ólífuolía

Hitið olíuna ´á pönnu og mýkið laukinn. Bætið kjötinu saman við og brúnið, saltið, piprið og kryddið. Bætið tómötunum saman við og látið malla þar í 10-15 mínútur.

Sósan

 • 250 g Mascarpone
 • 2 dósir sýrður rjómi (36%)
 • 5 egg

Þeytið vel saman með handþeytara.

Einnig þurfum við:

 • 2-3 eggaldin
 • rifinn mozzarellaost

Skerið eggaldin í þunnar sneiðar. Hitið olíu á pönnu og steikið eggaldinsneiðarnar þar til að þær eru orðnar vel mjúkar.

Þá er komið að því að setja allt saman. Smyrjið eldfast fat með smjöri eða ólífuolíu. Neðst setjum við lag af eggldinsneiðum. Sáldrið rifnum osti yfir og smá af eggja/rjómasósunni og lag af eggaldin. Næst setjum við kjötsósuna og aftur lag af eggaldin. Efst hellum við síðan eggja/rjómasósunni og síðan lag af rifnum osti.

Eldið í ofni við 200 gráður í um 30 mínútur eða þar til að osturinn hefur tekið á sig góðan lit.

Best er að láta réttinn standa í  að minnsta kosti 15-30 mínútur áður en hann er borinn fram því þá verður hann fastari í sér. Hann er svo sem ekkert verri ef hann kemur beint úr ofni en þá er hann allur mýkri. Þetta er líka einn af þessum réttum sem að er bara betri daginn eftir.

 

 

Deila.