Negroni – hinn fullkomni drykkur

Einfaldleikinn er oft bestur og það á svo sannarlega við um Negroni. Drykurinn samanstendur af þremur hráefnum: gini, Campari og vermouth hrærðum saman í jöfnum hlutföllum. Flóknara er það ekki en engu að síður er þetta einhver besti drykkur sem hægt er að fá sér.

Negroni er ítalskur að uppruna og goðsögnin segir að fyrir nákvæmlega öld, eða árið 1919, hafi ítalskur greifi að nafni Camillo Negroni beðið barþjón á kaffihúsinu Cafe Cassoni í Flórens um að gera fyrir sig drykkinn Americano – með einni breytingu þó nefnilega að skipta út sódavatninu fyrir gin. Hvort þessi saga eigi sér stoð í raunveruleikanum eða ekki er umdeilt og verður líklega aldrei útkljáð. Það voru hins vegar á þessum tíma til fjölmörg dæmi um drykki er byggðu á sama þema, þ.e. sterku áfengi, sætu vermouth og bitter af einhverju tagi. Nefna má drykki á borð við Manhattan (viský/bourbon, vermouth og bitterar), Boulevardier (viský, sætur vermouth og campari)

Negroni á sér því marga ættingja og hann á það líka sameiginlegt með þeim að þótt þetta séu „einfaldir“ drykkir er hægt að útfæra þá á margvíslega vegu. Campari er yfirleitt sá bitter sem notaður er í drykkinn en það er hægt að búa til fjölmargar útgáfur með því að para saman ólík gin og vermouth.

Negroni – uppskrift

  • 3 cl gin (London Dry Gin)
  • 3 cl Campari
  • 3 cl Vermouth Rosso

Það er hægt að gera Negroni jafnt hrærðan sem hristan. Okkur finnst best að hræra hann. Setjið gin, Campari og vermouth í viskýglas ásamt klaka. Hrærið vel saman. Skreytið með sneið af appelsínuberki.

Deila.