Þorskur með púrrulauk, feta og sinnepi

Þessi fiskuppskrift er reglulega dreginn fram á heimilinu, bæði fljótleg og frábær. Við notum yfirleitt þorsk, helst þykk og fín hnakkastykki, en það má líka nota í staðinn löngu eða ýsu.

  • 800 g þorskur
  • 1 púrrulaukur
  • 1 rauðlaukur
  • 1 dós fetaostur í kryddlegi
  • 2-3 msk grófkorna Dijon-sinnep
  • safi úr sítrónu
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Byrjið á því að skera niður púrrulauk og rauðlauk og setið í eldfast mót. Hellið fetaosti ásamt kryddlegi yfir, blandi saman við ásamt sinnepinu. Skerið fiskinn í bita og raðið ofan á. Hellið smá olífuolíu á fiskinn. Kreistið safa úr sítrónu yfir. Saltið og piprið.

Eldið við 200 gráður í um 20-25 mínútur.

Með þessu er fínt að hafa ferskt salat, hrísgrjón og kalda sósu. Pískið saman sýrðan rjóma og Sweet Chili Sauce í hlutföllunum 1 af chilli-sósu á móti 3 af sýrðum rjóma.

Deila.