Hallveig bloggar: Pizza með önd og perum

Pizzagerð er vinsæl hér á bæ á föstudögum eins og víðar, og þegar ég átti um daginn svolítinn afgang af niðursoðnum andalærum (confit de Canard) ákvað ég að nýta hana í föstudagspizzuna. Perur eiga sérlega vel með önd, svo ég ákvað að hafa þetta pizza bianco, það er að segja ekki með tómat-baseraðri sósu, heldur nýtti vel þroskaða peru og karamelliseraðan lauk í staðinn fyrir sósu. Ofan á fóru svo nokkrir bitar af gorgonzola, saxaðar valhnetur og loks sneiðar af ítölskum mozzarella-osti.

Hér fylgir uppskriftin:

  • 1 kúla súrdeigspizzadeig, eða það pizzadeig sem ykkur finnst best.
  • 100 gr kjöt af confit de Canard, niðursoðnum andalærum, rifið miðlungsgróft
  • einn laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 hvítlauksgeiri skorinn í 3 hluta
  • 2 msk hágæða ólífuolía
  • 1 tsk hunang
  • 1 þroskuð pera (ekki of þroskuð samt, bara nóg til að hún sé sæt) skorin í þunnar sneiðar
  • 5 valhnetur, saxaðar gróft
  • 70 gr gorgonzola eða annar blámygluostur
  • 1 kúla ítalskur mozzarella, niðursneidd

Hitið ofninn í 250°, best er að eiga pizzastein og hita mjög vel, fremur neðarlega í ofninum í um það bil hálftíma áður en til stendur að hefja pizzabökun. Eins má auðvitað nota pizzaofna, eða útigrill ef það hentar.

Byrjið á að útbúa laukinn. Hitið ólífuolíuna við miðlungshita, bætið hvítlauknum út í og svo lauksneiðunum og lækkið hitann. Leyfið að malla í góða stund, að lágmarki 15 mínútur við lágan hita og hrærið reglulega. Þannig verður laukurinn mjúkur án þess að brúnast. Eftir að laukurinn er orðinn unaðslega karamelliseraður, veiðið þá hvítlauksbitana upp úr og hrærið hunangið saman við. Hér má gjarnan salta aðeins og pipra. Það mætti auðvitað kreista hvítlaukinn saman við, en ég vildi ekki hafa of afgerandi hvítlauksbragð, því bragðið af hinum hráefnunum er fremur fíngert.

Fletjið deigið út í þunnan botn, dreifið laukblöndunni yfir, og raðið svo perusneiðunum fallega yfir pizzuna. Þá fer kjötið yfir, þar næst hneturnar og að lokum klípið þið gorgonzola ostinn yfir. Bakið í 5-7 mínútur, eða þar til pizzan er farin að brúnast, setjið svo mozzarella ostinn þegar um það bil 3 mínútur eru eftir af bökunartímanum.

Þetta var ein besta pizza sem ég hef gert.. og er það mikið sagt 😉

 

Deila.