Fiskbarinn á Bergi

Það er ekki á hverjum degi þessa dagana sem að fréttir berast af opnun nýrra og metnaðarfullra veitingastaða. Það er þeim mun ánægjulegra að verða vitni að slíku en á dögunum opnaði veitingahúsið Fiskbarinn á Hótel Bergi við smábátahöfnina í Keflavík, steinsnar frá gömlu Duus-húsunum. Það er enginn annar en Hákon Már Örvarsson sem þar stendur í eldhúsinu en hann er með fremstu matreiðslumönnum landsins. Auk þess að vera bronsverðlaunahafi úr Bocuse d’Or hefur hann verið yfirmatreiðslumaður á Holtinu, Vox og hjá Leu Linster í Lúxemborg að ekki sé minnst á Essensia sem hann rak á sínum tíma og veiðihúsið í Norðurá.

Fiskbarinn verður fyrst um sinn opinn um helgar, á föstudags- og laugardagskvöldum og áherslan er eins og nafnið gefur til kynna á sjávarfang og afurðir sem finna má á svæðinu. Konseptið er einfalt það er einn fimm rétta matseðill í boði og hann er ekki af verri endanum, hver rétturin slær öðrum við.

Hákon Már segir að upprunalega hafi planið verið að opna Fiskbarinn á síðast ári en það hafi dregist sökum Covid-takmarkana. Nú væri hins vegar vonandi lag og góður tími gefist til undirbúnings áður en allt færi á fullt.

“Ég hef frá upphafi lagt áherslu á að matseðillinn væri ekki of umfangsmikill og að við myndum hafa þetta persónulegt. Fókusinn er á fisk og grænmetti og ekki stefnt á að hafa kjötrétti í boði. Hér í kring má finna flott hráefni út um allt, við erum til dæmis nú í upphafi með bleikju og hrogn frá Matorku í Grindavík, ferskan og fínan þorsk úr fiskvinnslu sem er nokkrum húsum frá okkur og grjótkrabba úr Faxaflóa. Svo þarf auðvitað alltaf að koma til einhver sköpun til að gera matinn áhugaverðan og skemmtilegan og trekkja folk að. Ég sé fyrir mér að fólk geti treyst því að alltaf sé dúndurgóður fiskur í boði og matseðillinn ráðist svolítið af því hvað af hráefni er áhugaverðast hverju sinni.”

Með matseðlinum er boðið upp á að taka sérstaka vínpörun með.

Deila.