Við gerum allt of lítið að því að nota lambahakk en til dæmis við Miðjarðarhafið er löng hefð fyrir því að nota lambahakk í margvíslega rétti eins og til dæmis kjötbollur á borð við þessar.
- 600 g lambahakk
- 1 (ekki of stór) laukur
- 1 búnt steinselja, helst flatlaufa
- 1 búnt kóríander
- 1 eggjarauða
- 1 tsk kóríanderfræ
- 1 tsk Cumin-fræ
- 2 tsk paprika
- ¼ tsk cayenne-pipar
- 1 tsk mulinn pipar
- ólífuolía
Byrjið á því að rista kóríanderfræin. Það er best að gera á þykkri pönnu og miðlungshita. Veltið þeim um pönnuna í 2 mínútur eða þar til að þau eru farin að anga vel. Bætið þá Cumin-fræjunum saman við og ristið þau með í rúma hálfa mínútu. Setjið í mortel, leyfið að kólna aðeins og myljið síðan.
Setjið laukinn, steinselju og ferskan kóríander í matvinnsluvél og saxið fínt. Setjið í skál ásamt kryddblönduni úr mortelinu, paprika, cayenne og salti og pipar. Blandið lambahakkinu saman við.
Næsta skref er að móta kjötbollurnar. Það er best að gera með ískúluskeið. Það ættu að koma allt að 20 kjötbollur úr þessari blöndu.
Hitið nú olíu á pönnu og steikið bollurnar í um 8-10 mínútur á miðlungshita. Þið gætuð þurft að gera það í tveimur umferðum.