Hnúðkál með parmesan og steinselju

Hnúðkál er káltegund sem er skyld hvítkáli og rósakáli en einkenni hennar er að stilkurinn er þykkur og hnúðkenndur, í laginu meira eins og næpa eða rófa. Heimildir eru um hnúðkál í Evrópu allt frá miðöldum og það hefur ekki síst verið vinsælt í þýskumælandi löndum en þýska heitið yfir hnúðkál er Kohlrabi. Hnúðkál nýtur einnig vinsælda fyrir að henta vel í lágkolvetnafæði á borð við ketó.

Það er hægt að nota hnúðkál á margvíslega vegu. Hér bökum við hnúðkálssneiðarnar og blöndum síðan parmesan og steinselju saman við. Afbragðs meðlæti með jafnt kjöti sem fiski.

Það sem við þurfum er eftirfarandi, magnið ræðst af því hversu margir ætla að borða en gera má ráð fyrir um einum hnúðkálshaus á mann:

  • hnúðkál
  • rifinn parmesan-ostur
  • flatlaufa steinselja, söxuð
  • ólífuolía
  • smjör
  • cayennepipar
  • salt

Byrjið á því að flysja hnúðkálið og skerið síðan niður í um sentimetersþykka bita. Setjið í fat og hellið ólífuolíu yfir. Veltið upp úr ólífuolíunni. Saltið og kryddið varlega með cayenne-pipar. Setjið 2-3 tsk af smjör ofaná.

Eldið í um 40 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. Veltið um einu sinni eða tvisvar á þeim tíma.

Takið úr ofninum, blandið rifnum parmesan og saxaðri steinselju saman við og berið fram.

Deila.