Það er margt sem við tengjum við páska. Páskaegg, páskaliljur, páskahérar, gulir ungar og súkkulaði. Allar eiga þessar hefðir sér langa sögu. Einhver elsta hefðin sem tengist páskunum er hins vegar sá siður að borða lamb á páskadag. Þetta er trúarleg hátíð og rætur hefðarinnar er því að finna í trúarlegum hefðum.
Lambið hefur lengi haft trúarlega vísan og verið eins konar tákn hreinleika og sakleysis. Í Mósebók segir til dæmis frá því hvernig Guð hafi frelsað gyðinga úr ánauð í Egyptalandi með því að fara um Egyptaland með tíu plágur. Sú tíunda og skæðasta var að deyða alla frumburði. Skipaði Guð Móses að gyðingar skyldu merkja hurðir húsa sinna með blóði úr nýslátruðu lambi og myndi hann þá ganga fram hjá. Páskahátið gyðinga eða Pesach er til að halda upp á flóttann frá Egyptalandi en Pesach merkir að „ganga framhjá“. Var lambi áfram slátrað og það snætt á Pesach í þeirri von að hið illa í heminum myndi sniðganga heimilið.
Við kristnitöku hélst sú hefð að lambið væri heilagt og er stundum vísað til Jesú sem „lamb Guðs“. Þá hefur verið litið svo á að Kölski geti brugðið sér í líki allra kvikinda heims nema lambsins sökum sakleysis þess.
Smám saman festi sú hefð sig í sessi í kaþólskri trú að lamb væri tákn páskanna og væri uppistaðan í kjötmáltíðinni á páskadag er föstunni löngu lyki. Svo heppilega vildi lýka til að það var einmitt um þetta leyti árs sem að hægt var að byrja að slátra vorlömbunum. Slátrun hins saklausa lambs varð að tákni um þá fórn sem Jesú færði mannkyninu.
Í mörgum löndum í Suður-Evrópu er hefðin sú að grilla lambið í heilu lagi á páskum. Þeir sem vilja spreyta sig á því geta lesið sig til um það hér. Annars staðar er algengara að nota stórsteikur, hrygg eða læri.