Ítalskt kartöflusalat

Það er fátt betra með grilluðu kjöti en gott kartöflusalat. Þetta er svolítið öðruvísi og frábrugðið hinum hefðbundnu sem yfirleitt eru bandarísk að uppruna. Hér setjum við saman margvísleg hráefni úr ítalska eldhúsinu (og raunar franskt Dijon-sinnep) og útkoman er unaðsleg. Það hentar vel með grilluðu nauti, lambi, svínakjöti og kjúkling, ekki síst þar sem kryddjurtir eru notaðar til bragðauka í staðinn fyrir t.d. BBQ-sósu eða sæta marineringu. Og það smellur einnig að grilluðum lax og bleikju.

  • 800 g kartöflur
  • 1 dl ólífuolía
  • 10-12 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
  • 1 msk Dijon-sinnep
  • 2 msk balsamikedik
  • 1 lúka valhnetur, ristaðar
  • 1 væn lúka fint söxuð flatlaufa steinselja
  • parmesanostur, grófrifinn
  • olía til bökunar
  • salt og pipar

Skerið kartöflurnar í bita. Setjið í eldfast mót. Hellið slatta af ólífuolíu yfir, saltið og piprið. Eldið við 220 gráður í ofni í um 25-30 mínútur. Veltið kartöflunum við með skeið einu sinni eða tvisvar til að þær eldist jafnt. Þegar kartöflurnar eru fulleldaðar eru þær teknar út úr ofninum og geymdar.

Pískið saman olíu, ediki, sinnepi, salti og pipar með gaffli í skál.

Saxið sólþurrkuðu tómatana og steinseljuna. Setjið valhneturnar á bökunarpappír og ristið í 200 gráðu heitum ofni í um 4-5 mínútur. Þær eiga að dökkna en alls ekki að brenna. Blandið kartöflunum, tómötum, steinselju og hnetum saman við olíublönduna í skálinni. Rífið parmesanost á grófa hlutann á rifjárninu og blandið saman við.

Deila.