Briam – grískt ratatouille

Briam er einn af vinsælustu réttum gríska eldhússins, þetta er ofnbakaður grænmetisréttur sem segja má að sé eins konar grískt afbrigði af því sem Frakkar kalla ratatouille. Heitið Briam er talið koma af tyrkneska orðinu Biryam sem merkir ofnréttur sem fyrir sitt leiti er sprottið úr hinu perskneska orði biryan sem merkir ofnréttur með hrísgrjónum.

En hvað sem því líður þá er þetta tiltölulega fljótlegur réttur í undirbúningi sem hægt er að bera fram sem meðlæti t.d. með ofnbökuðu eða grilluðu lambi eða kjúkling. Þá er Briam oft borið fram eitt og sér með góðu súrdeigsbrauði og fetaosti. Algjör snilld.

En það sem við þurfum í Briam er fullt af grænmeti sem við sneiðum niður í frekar þunnar sneiðar. Yfirleitt er notað:

  • Kartöflur (það er gott að nota bökunarkartöflur)
  • Eggaldin
  • Kúrbítur
  • Stórir tómatar
  • Rauðlaukur eða laukur

Þegar grænmetið hefur verið sneitt niður setjum við það í stóra skál og veltum upp úr ólífuolíu, óreganó og jafnvel rósmarín ásamt nokkrum fínt söxuðum hvítlauksgeirum. Saltið og piprið.

Næst setjum við maukaða tómata í fatið sem við ætlum að baka Briamið í. Það þarf svona 3 dl og hægt er að nota maukaða tómata úr dós, passata eða heila tómata úr dós sem við maukum létt í matvinnsluvél. Hrærið 1 dl af vatni saman við tómatana í botninum.

Næst röðum við grænmetinu á fatið og pössum upp á að víxla með eggaldin, kúrbít, tómötum, kartöflum og lauk.

Setjið álpappír yfir fatið og eldið í 20-30 mínútur í 200 gráðu heitum ofni. Þá er álpappírinn tekinn af og eldað áfram í um 30 mínútur eða þar til að grænmetið hefur tekið á sig góðan lit og vökvinn með tómötunum gufað upp að mestu.

Deila.