Marokkósk ævintýri á Siglunesi

Einhverja merkilegustu mataupplifun landsins er að finna á Siglufirði þar sem rekinn hefur verið marokkóskur veitingastaðuri í nú að verða hálfan áratug. Nú hafa svo sem verið að spretta upp veitingastaðir með framandi matargerð hér og þar um landið en ég man ekki eftir að áður hafi verið hægt að fá hér alvöru marokkóskan mat. Einhverjir staðir hafa sérhæft sig í líbanskri matargerð og aðrir s.s. Sumac sótt innblástur m.a. til Marokkó en á Siglunesi er líklega fyrsti hreinræktaði staðurinn á Íslandi. Og ekki bara það, þetta er stórkostlega góður staður og matargerðin vönduð og spennandi.

Það að þetta hafi orðið að verulega má rekja til ferðalags hótelrekandans Hálfdáns Sveinssonar til Marokkó á sínum tíma og heimsóknar á veitingastað í bænum Essaoura. Hann kolféll fyrir matnum og endaði á að viðra það við eiganda staðarins í hálfkæringi að fá kokkinn til Íslands. Við aðra heimsókn á staðinn færðist meiri alvara í þá málaleitan, ekki síst þegar í ljós kom að kokkurinn Jaouad Hbib var meira en tilkippilegur í slíkt ævintýri. Hófst þá þrautaganga við að fá öll tilskilin leyfi en það gekk upp að lokum og fljótlega eftir að Hbib fór að elda byrjaði orðrómurinn um þennan stórkolega mat að fara eins og eldur um sinu meðal íslenskra sælkera.

Það er ævintýri að borða á Siglunesi allt frá fyrstu skeiðinni af súpunni – sem á að vera allra meina bót – að eftirréttunum, t.d. fersku appelsínusalati með myntu og rósavatni. Þar á milli komu forréttirnir á borð við innbakað sjávarfang, sem reyndust rækjur, silungur og smokkfiskur í filodeigi með ostrusósu og einnig diskur af hörpufiski með grjónum og saffransósu ásamt apríkósum og ferskjum, karamelliseruðum í eplasafa, kanil og stjörnuanís. Og svo auðvitað aðalréttirnir, lamb og kjúklingur, hægeldað í leir-tagine þar til að kjötið dettur af beinunum og kryddin og soðið mynda bragðmikla sósu sem hægt er að skófla upp með couscous-inu sem kemur með kanil. Með kjúklingnum eru sítrónur bakaðar með og fíkjur og hnetur með lambinu.

Meira að segja vínseðillin er öðruvísi, vín frá Spáni sem flutt eru inn sérstaklega fyrir staðinn af Margréti, konu Hálfdáns, hin prýðilegustu vín frá Rueda og Ribera del Duero.

Deila.