Bruggstofa og Honkýtonk við Snorrabraut

Íslenskir handverksbjórar hafa svo sannarlega verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum og eitt af framsæknustu og athyglisverðustu brugghúsunum hefur verið RVK Brewing sem að bruggar bjórana sína í Holtunum í Reykjavík. Hægt hefur verið að koma í smakkanir í bruggstofu RVK Brewing í Skipholti til að smakka IPA, Saison, Sour og aðra bjórstíla að hætti hússins. Nú hefur brugghúsið hins vegar fær út kvíarnar og opnað bruggstofu á Snorrabraut í samvinnu við vínstúkuna Tíu sopa. RVK Brewing leggur þar til bjórana en þeir Ólafur Örn á Tíu sopum og Michelin-kokkurinn Ragnar Eiríksson eru hugmyndasmiðirnir á bak við matinn sem er ekta suðurríkja BBQ sem þarna er í boði undir merkjum Honky Tonk. Ragnar hefur á síðustu árum fylgst grannt með því sem er að gerast í grillmatatargerðinni vestanhafs.

Uppruni þess hugtaks er ekki á hreinu en einhvern tímann á nítjándu öld var farið að nota það yfir einfaldar knæpur þar sem yfirleitt var einnig boðið upp á tónlist. Í dag er það notað jafnt í tengslum við tónlist sem BBQ og þá yfirleitt með vísan til þess að um sé að ræða suðurríkjaeldamennsku með hægelduðum grísarifjum, pulled pork og fleiru góðgæti.

Á Bruggstofunni má því segja að mætist tveir spennandi heimar, annars vegar handverksbjórgerðin og hins vegar BBQ-eldamennskan sem rétt eins og bjórgerð hefur verið í mikilli þróun og deiglu ekki síst í Bandaríkjunum undanfarin ár.

Deila.