Tagine er einn af þekktustu réttum marokkóska eldhússins en tagine vísar í raun bæði til leirpönnunnar með keilulaga lokinu sem réttirnir eru eldaðir í og réttarins sjálfs. En það þarf ekki tagine til að gera tagine, það má vel elda þessa rétti í t.d. góðum pottjárnspotti.
Við ákváðum að skella í lamba tagine á dögunum enda hið stórkostlega tagine sem við fengum á Siglunesi fyrr í sumar enn ferskt í minningunni.
Grunnurinn í tagine er yfirleitt kjúklingur eða lamb sem er hægeldaður í tagine með kryddum og þurrkuðum ávöxtum þannig að úr verður pottréttur með flóknu og djúpu bragði. Oft eru líka notaðar saltlegnar sítrónur (preserved lemons) sem setja mark sitt á bragðið. Ef þið eruð að nota þær í fyrsta skipti skuluð þið fara varlega, það þarf ekki mikið til að þær geri sitt gagn. Við höfum notað þær frá Híalín á Hverfisgötu en líka séð þær stundum í Frú Laugu og betri stórmörkuðum. Svo er auðvitað hægt að gera þær sjálf.
- 750 g lambakjöt, t.d. af innralæri, skorið í litla bita
- 2 laukar, saxaðir
- 3-4 sellerístilkar, saxaðir
- 3-4 stórir hvítlauksgeirar, saxaðir
- 7-8 sm bútur af engiferrót, rifinn
- 2 msk cumin
- 2 msk mulinn kóríander
- 1 msk kanill
- 1 dós heilir tómatar
- 1 dós tómatapúrra
- 2-3 msk Harissa
- 10 þurrkaðar apríkósur
- 1-2 saltlegnar sítrónur (preserved lemons), skornar í bita.
- 5 dl lambasoð (vatn og kraftur)
- 1 dós kjúklingabaunir
- 1 búnt kóríander
- Ólífuolía
- Salt og pipar
Hitið ofninn í 200 gráður.
Byrjið á því að hita olíu í pottinum og brúnið kjötbitana í nokkrar mínútur. Bætið næst lauk og sellerí í pottinn og mýkið í 4-5 mínútur. Næst fara hvítlaukurinn og rifinn engifer út í ásamt kryddunum (cumin, mulinn kóríander og kanill). Hrærið vel saman.
Setjið nú tómatana, tómatapúrru, harissa, soð, apríkósur og saltlegnu sítrónubitana í pottinn. Leyfið suðu að koma upp og látið malla í nokkrar mínútur. Saltið og piprið og hrærið í pottinum. Setjið lok á pottinn og setjið inn í ofn í 45-60 mínútur.
Takið pottinn úr ofninum og bætið kjúklingabaununum saman við. Eldið áfram í ofni án loks í aðrar 45-60 mínútur.
Það hvort þið veljið að elda í 2×45 mínútur eða 2×60 fer eftir hvað þið hafið mikinn tíma. Ef þið hafið tök á notið þá lengri tímann.
Takið pottinn úr ofninum og hrætið söxuðu kóríander saman við.
Berið fram með couscous. Það er hægur leikur að elda það. Best er að miða við jöfn hlutföll af vatni og couscous. Til dæmis 200 g af couscous á móti 200 g af vatni. Hitið vatnið ásamt klípu af salti upp að suðu. Hrærið coucous saman við vatnið og slökkvið á hitanum. Látið standa í um 5 mínútur.
Það er líka gott að setja smá ólífuolíu saman við couscous-grjónin áður en þau fara í vatnið.