VÍN 101: Spænska tilraunastofan

Spánn hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið að einhverju mest spennandi víngerðarlandi Evrópu. Það eru ekkert mörg ár síðan að spænsk gæðavín voru fyrst og fremst úr einni þrúgu, Tempranillo og aðallega ræktuð í einu héraði, nefnilega Rioja. Og ef spurt hefði verið um spænsk hvítvín hefðu fæstir líklega getað nefnt einhverja spænska hvítvínsþrúgu eða svæði þar sem hvítvín væru ríkjandi – jafnvel þótt lífið lægi við. Nú eru nýir tímar og spænsk víngerð í afskaplega örri þróun. Að mörgu leyti minnir Spánn um margt á Nýja heiminn. Það er tilraunastarfsemi í gangi alls staðar og allt virðist mögulegt, bæði hvað varðar innihald og framsetningu.  Ný svæði skjóta upp kollinum og gömul, hefðbundin svæði ganga í endurnýjun lífdaga.

Framan af síðustu öld var það hins vegar ekki raunin. Spánn var íhaldssamt og svolítið gamaldags samfélag að flestu leyti, líka þegar kom að vínum. Innlendi markaðurinn byggði á bændasamfélagi frekar en borgarsamfélagi.  Tuttugasta öldin einkenndist lengi vel af herforingjastjórnum og byrjun massatúrismans þar sem þær milljónir ferðamanna er streymdu til landsins höfðu meiri áhuga á grísaveislum og Sangría en dýrari gæðavínum.

Þau voru þó vissulega til staðar og eftir því sem leið á tuttugustu öldina fóru þau að gera vart við sig. Fyrst inn á sviðið voru Rioja-vínin.  Einhver bestu “nautakjötsvín” sem hægt er að hugsa sér.  Fáguð, krydduð og eikuð, látin liggja árum saman á tunnum og flöskum áður en þau komu á markað til að uppfylla skilyrðin fyrir hinni sérstöku Reserva og Gran Reserva-flokkun.

Sama má segja um Ribera del Duero. Ribera fékk ekki stöðu sem DO-hérað fyrr en árið 1982. Héraðið var þá algjörlega óþekkt fyrir utan Vega Sicilia en hefur í dag stöðu sem helsta rauðvínssvæði Spánar ásamt Rioja. Vínunum þaðan svipar til Rioja-vínanna, þrúga héraðsins Tinto Fino er afbrigði af Tempranillo, en vínin eru yfirleitt stærri og meiri hvað allt varðar. Þekktast þeirra eru Vega Sicilia og Pesquera en í seinni tíð hafa komið á sjónarsviðið ofurvín á borð við Pingus, eitt dýrasta vín Spánar en líka fjölmörg frábær vínhús sem eru ekki eins dýr en framleiða vín í hæsta gæðaflokki.

Þriðja svæðið þar sem Tempranillo er fyrirmikið er Toro. Vínin frá Toro hafa ávallt haft það orð á sér að vera öflug. Þrúgan sem þarna er ræktuð er kölluð Tinta de Toro, afbrigði af Tempranillo, hýðið er þykkara en í afbrigðinu í Rioja sem gerir vínin tannískari og litmeiri. Ekrur í Toro eru flestar í 700-750 metra hæð yfir sjávarmáli og loftslagið einkennist af miklum andstæðum. Á sumrin verður gífurlega heitt, hitinn oft yfir 40 gráðum en á kvöldin og nóttunni kólnar verulega, sem hefur jákvæð áhrif á þroska vínanna. Veturinn er síðan kaldur og napur þarna uppi á sléttunni.

Nær þriðjungur allra spænskra vína er ræktaður á hásléttunni  eða Meseta Central á svæðinu La Mancha suður af Matrdir. Þetta er ekki þekktasta víngerðarhérað Spán en engu að síður stærsta víngerðarhérað heims, þekur stóran hluta Spánar. Hér voru lengst af framleidd ógrynni af sviplausum rauðvínum og hvítvínum, t.d. úr þrúgunni Airen. Á síðustu 20-30 árum hefur hins vegar átt sér sannkölluð bylting og mörg af framsæknustu vínhúsum Spánar er nú að finna á þessu svæði. La Mancha  og Valdepenas eru hugsanlega að verða einhver athyglisverðasta uppspretta ódýrra en góðra borðvína í Evrópu, ekki síst þegar þrúgan Monastrell kemur við sögu. Hún er einnig mikið ræktuð í suðurhluta Frakklands og heitir þá Mourvédre. Þarna má þó líka finna frábær Tempranillo-vín og vín úr þrúgum á borð við Syrah og Garnacha.

Og svona má halda áfram. Gleymum til dæmis ekki Katalóníu. Einhver áhrifamesti einstaklingur spænsku vínsögunnar er Miguel Torres sem nær einum og óstuddum tókst að koma Katalóníu á kortið sem mikilvægu víngerðarhéraði  jafnt með því að rækta katalónskar sem alþjóðlegar þrúgur (og átti raunar mikinn þátt í því að gera það sama fyrir Chile). Þaðan koma líka bestu freyðivín Spánar – Cava – sem ekki síst á krepputímum eru skæður keppinautur kampavínanna. Nýstirnin eru líka mörg og ber þar fyrst að nefna Priorato, svæði sem lengi skipti litlu máli en framleiðir nú mörg af stærstu og dýrustu vínum Spánar ekki síst fyrir tilstilli Alvaro Palacios.

Þeim fjölgar svo stöðugt svæðunum sem koma sér á hið alþjóðlega kort: Somotano, Jumilla, Alicante svo nokkur séu nefnd.

Ef við horfum á þróun spænskrar víngerðar síðustu árin má greina nokkra strauma. Í fyrsta lagi má segja að „hefðbundnu“ spænsku vínstílarnir séu að brotna upp. Dæmigerðu rauðvínin þar sem þrúgan er Tempranillo og áralöng geymsla á eik setur sterkan svip á vínið eru auðvitað ennþá til en samhliða þeim er orðin til fjölbreytt flóra vína.

Vínekrurnar teygja sig út um sléttur og upp um allar hæðir í sveitum Rioja.

Rioja er líklega skýrasta dæmið. Þegar vín þaðan eru smökkuð vekur athygli hversu ólík og fjölbreytt þau eru. Það er mjög erfitt að benda lengur á eitt tiltekið vín og segja að það sé dæmigert fyrir víngerð svæðisins. Um árabil hefur verið talað um nýbylgjuvínin þar sem meiri áhersla er lögð á að ná sem mestu út úr ávexti þrúgunnar og nýjar tunnur úr franskri eik teknar fram yfir notaðar tunnur úr amerískri eik. Tíminn sem vínið liggur á eikinni hefur sömuleiðis verið að styttast.

Á síðustu árum hefur áherslan á draga fram einkenni ólíkra svæða og ekra verið í forgrunni, áhersla á það sem Frakkar myndu kalla terroir. Það hvernig vínin eru flokkuð samkvæmt hinu hefðbundna kerfi (Crianza, Reserva eða Gran Reserva) er oft farið að skipta minna máli en hvaðan vínið koma og hvernig víngerðin er.

Annað sem einkennir Spán er að þeim svæðum þaðan sem spennandi og oft á tíðum frábær vín koma er alltaf að fjölga. Þau víngerðarhéruð sem fyrir nokkrum árum töldust tiltölulega ný á borð Ribera del Duero, Priorat og Pénedes eru að verða nokkuð ráðsett en jafnframt eru önnur svæði sífellt að færa sig upp á skaftið. Bierzo, Empordá, Alicante, Aragón, Ribeira, Utiel-Requena, Sierras de Malaga, Montsant, Arribes og Calatayud.

Oftast eru þetta lítil vínhús sem oftar en ekki leggja mikið upp úr terroir og að vínræktin sé líkrækt og/eða lífefld. Það fjölgar líka stöðugt þrúgunum sem að skjóta upp kollinum – sú tíð er löngu liðin að nær öll spænsk rauðvín væru úr Tempranillo. Á síðustu árum hafa þrúgur á borð við Bobal, Monastrell, Garnacha og Mencía verið sífellt vinsælari en nú eru líka farin að sjást þrúgur með nöfnum á borð við  Brancellao, Caino, Carabuneira, Ferrol, Souson, Tintilla og Juan Garcia.  Stundum er um að ræða þrúgur sem eiga sér langa sögu en voru nær gleymdar og jafnvel að hverfa úr rækt sem verið er að endurvekja og gera tilraunir með – oft með frábærum árangri.

Það fer minna fyrir alþjóðlegum (les frönskum) þrúgutegundum þótt vissulega megi rekast á Cabernet Sauvignon og Chardonnay hér og þar. Stundum koma hins vegar verulega spennandi vín úr slíkum þrúgum – og þá ekki síst Syrah. Sú þrúga nýtur sín einstaklega vel víða í spænskum aðstæðum.

En víngerð á Spáni snýst ekki lengur fyrst og fremst um rauðvín. Hvítvínin verða stöðugt betri og meira spennandi. Albarino-vínin frá svæðunum Rias Baixas og Valdeorras í Galisíu hafa fyrir löngu sannað sig. Vínhúsin í Galisíu eru yfirleitt lítil og fjölskyldurekin, vínin fersk, arómatísk og heillandi. Frábær vín með sjávarréttum eins og Spánverjar eru snillingar í að framreiða. Í Valdeorras er Albarino ekki allsráðandi. Þrúgan Godello sem var nánast að hverfa úr rækt fyrir hálfri öld er nú uppi staða nokkurra bestu hvítvína Spánar. Þegar best lætur svipar henni til fínlegra Búrgundarvína auk þess að vera fersk og míneralísk.

Verdejo og Viura-vínin frá Rueda hafa sömuleiðis verið að ryðja sér til rúms. Rueda er í Castilla y Leon-héraðinu norðvestur af Madrid, steinsnar frá Ribera del Duero. Aðstæður eru að mörgu leyti ekki ósvipaðar, þetta er hátt uppi á spænsku hásléttunni, flestar ekrur í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli og loftslagið einkennist af miklum sveiflum innan sólarhringsins og milli árstíða.

Þarna hafa vín verið ræktuð í á annað þúsund ár en það var fyrst fyrir rúmum tveimur áratugum síðan sem að víngerðin fór að taka á sig þá mynd sem að hún hefur í dag. Eitt af þekktustu vínhúsum Rioja, Marques de Riscal leitaði um allan Spán að rétta staðnum til að framleiða nútímaleg hvítvín til útflutnings og að lokum varð Rueda fyrir valinu. Einn þekktasti víngerðarmaður Frakka á þeim tíma, Emile Peynaud var fenginn til verksins sem ráðgjafi og hans niðurstaða var að Rueda væri rétti staðurinn og þrúgan sem leggja ætti áherslu á væri Verdejo.

Hún minnir um margt á Sauvignon Blanc, svolitið skörp og sýrumikil, vínin oftast mjög þurr, flott og fersk. Akkúrat það sem flestir vínneytendur í dag eru að leita eftir.

Jafnvel rauðvínshéraðið Rioja er allt í einu að verða mjög áhugavert hvítvínssvæði. Rioja-hvítvínin eru líka að verða æ fjölbreyttari eftir að slakað var á reglum fyrir nokkrum um hvaða þrúgur megi nota og allt í einu varð leyfilegt að rækta Sauvignon Blanc og Chardonnay. Það eru hins vegar enn hinar hefðbundnu þrúgur héraðsins, Viura og Malvasia sem eru á bak við bestu vínin. Þær geta nefnilega náð ótrúlegri dýpt og búið til vín sem geta keppt við þau allra bestu í heimi. Þau bestu frá klassískum húsum á borð við Lopez de Heredia (Vina Tondonia) og Murrieta (Castillo Ygay) eru geymd árum og jafnvel áratugum saman áður en þau eru sett á markað en eru samt ótrúlega fersk og blómstra við þennan þroska. Aðrir framleiðendur leggja áherslu á yngri og ferskari vín og draga mjög úr eða jafnvel sleppa alveg eikinni.

Annar straumur sem verður meira og meira áberandi er að stöðugt virðist vera aukinn þungi í framleiðslu á hágæða-freyðivínum. Þekktustu freyðivínin hafa komið frá Katalóníu og verið gerð undir merkjum Cava en nokkur af bestu húsunum hafa hins vegar verið að rjúfa sig frá vegna deilna um regluvekrið. Hið frábæra hús Raventos i Blanc varð fyrst til fyrir nokkrum árum og nýlega klauf sig hópur frægra húsa til viðbótar frá og ætlar að framleiða undir eigin skilgreiningu (Corpinnat) í stað þess að nota hina nýju hágæða skilgreiningu Cava-svæðisins – Parajes Calificados. Þessar deilur breyta þó ekki því að líklega hefur framboðið af spænskum freyðivínum aldrei verið betra.

Lesið fleiri greinar vínnámsskeiðsins Vín 101 með því að smella hér

Lesið meira um Spán, spænsk vín og spænska matargerð með því að smella hér

Deila.