Hvernig stendur á því að vín eru ræktuð í sumum löndum en ekki öðrum? Þrátt fyrir að ekki vanti sól og hita. Þar eru margar breytur að baki, sumar þeirra menningarlegar en fyrst og fremst eru það loftslagslegir þættir sem ráða ferðinni
Þegar að við skoðum vínframleiðslu í heiminum á síðasta ári kemur líklega engum á óvart að þar sé Ítalíu á toppnum og að síðan komi Frakkland og Spánn. Við sjáum líka að það er ekki mikill munur á Ítölum og Frökkum og þegar að tölur eru skoðaðar lengra aftur í tímann þá skiptast þessar þjóðir stundum á sætum. Í fjórða sæti eru Bandaríkin en þá er farið að muna töluvert á framleiðslumagni. Við þurfum að leggja saman framleiðslu Bandaríkjanna, Ástrala og Argentínu til að komast á svipaðan stað og Ítalír í magni. Það segir ákveðna sögu. Það má líka horfa til þess að heildarframleiðslan var um 263 milljónir hektólítra. Helmingur alls víns sem framleitt var kemur því frá fjórum löndum: Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Bandaríkjunum.
Vínviður er mjög harðgerður og hann er hægt að rækta nokkurn veginn hvar sem er í heiminum. Vínvið væri þess vegna hægt að rækta á Íslandi, rétt eins og til dæmis eplatré, sem hér er má finna víða í görðum. En það sama á við og með eplatrén að það er hins vegar eitt að fá plöntuna til að tóra við íslenskar aðstæður, annað að dafna og gefa einhverja uppskeru.
Vínviðurinn þarf sól og hita til að þrúgurnar nái tilhlýðilegum þroska og hann þarf sömuleiðis að hvíla sig yfir vetrartímann. Fyrra skilyrðið útilokar nyrstu og syðstu svæði veraldar og hið síðara útilokar hitabeltið sem heppileg vínræktarsvæði.
Engu að síður er vínræktarsvæði heimsins ansi umfangsmikið. Nyrstu vínekrur heims eru jafnvel farnar að teygja sig til Danmerkur og Svíþjóðar þótt lengi hafi Þýskaland verið skilgreint sem nyrstu mörk vínræktar.
Í raun á það enn við þótt að viðmið séu að breytast mjög hratt vegna loftslagsbreytinga. Sænsk og dönsk vín eru enn sem komið er fyrst og fremst kúríósum en ensk vín, sem til skamms tíma voru aðhlátursefni (ekki síst Frakka) eru í dag tekin meira en alvarlega. England er að verða alvöru víngerðarland og þá hvítvína og ekki síst freyðivína. Víngerðarsvæðin ensku eru fyrst og fremst í suðurhlutanum en farin að teygja sig ansi langt í norður, allaleið til Yorkshire. Þá má finna vínekrur í Wales.
Á suðurhvelinu voru það lengi vel Nýsjálendingar sem áttu metið og vínekrur Black Ridge í héraðinu Central Otago voru þær syðstu í heimi. Það met féll hins vegar í fyrra þegar að vín frá Lago Musters í Patagóníu í Argentínu komu á markað. Þær ekrur eru á 45,33 gráðum í suður.
Með nýrri tækni og kynbótum á plöntum hefur vínræktarsvæði heimsins hægt og sígandi verið að þenjast út. Vín eru nú framleidd á ótrúlegustu stöðum. Ekki bara í Svíþjóð heldur á Indlandi, í Kína, Japan, Perú,Thaílandi og í alls 50 ríkjum Bandaríkjanna. Það eru einungis Alaska og Hawaii sem ekki eru með skilgreind vínframleiðslu svæði.
Í stórum dráttum má segja að vínviður njóti sín best þar sem loftslag er sæmilega temprað. Rétt eins og mannskepnunni er vínþrúgunni illa við öfgar í veðrinu.
Sumur þurfa að vera löng, heit og sólrík til að þrúgurnar nái besta mögulega þroska. Það er hins vegar einnig mikilvægt að það sé ekki of heitt og best er ef mikill hitamunur er á milli dags og nætur. Gott dæmi um það er Kalifornía. Í innsveitum Kaliforníu verður gífurlega heitt á sumrin. Bestu svæðin, t.d. Napa og Sonoma, eru þau sem njóta góðs af köldu sjávarlofti frá Kyrrahafinu sem sækir inn í land á nóttunni.
Annars staðar, t.d. í Bordeaux í Frakkland, heldur hafið hins vegar hitastiginu uppi og tryggir þar með kjöraðstæður til vínræktar.
Rétta loftslagið er mikilvægasta forsenda vínræktar. Áhrifavaldarnir sem ráða lokaniðurstöðunni eru hins vegar mun fleiri eins og við munum halda áfram að fjalla um í næstu pistlum.