Louis Jadot er með mikilvægustu vínhúsum Búrgunds, hvort sem litið er til umfangs víngerðarinnar eða gæða bestu vína hússins. Jadot er bæði einn stærsti eigandi vínekra í Búrgund, á samtals um 60 hektara af ekki síst Premier Cru og Grand Cru-ekrum, og er einnig það sem kallað er négociant, þ.e. vínhús sem kaupir þrúgur af vínræktendum, allt frá Beaujolais í suðri til Chablis í norðri.
Vincent Delcher útflutningsstjóri Jadot var staddur hér á landi á dögunum og hélt nokkrar smakkanir. Við smökkuðum með honum breiða línu af Jadot-vínum sem hér eru fáanleg frá Chablis, Cote de Beaune, Cote de Nuits en einnig Pouilly-Fuissé frá hinu magnaða Domaine Ferret sem Jadot festi kaup á árið 2014 og hefur verið rekið sem sjálfstæð eining síðan.
Árgangarnir voru frá 2015-2020 og vínin endurspegluðu vel stíll hússins og einkenni einstakra svæða, hvort sem það var þéttur og öflugur Pommard les Grand Epenots 2015 sem geyma þyrfti í amk 2-3 ár í viðbót eða mjúkur og seiðandi Chambolle Musigny les Drazey 2017 sem var minna ár en algjörlega tilbúið til neyslu núna. Þá vakti krafturinn og dýptin í ávexti eins ódýrasta vínsins í smökkuninni athygli eða hið hvíta Chablis le Grand Rives 2020.
En síðustu ár hafa verið mikil áskorun í Búrgund. Vínhús þarf hafa þurft að takast á við heimsfaraldur eins og annars staðar en jafnframt hefur uppskera dregist verulega saman síðustu þrjú árin af margvíslegum ástæðum, frosti að vori, rigningu að sumri, hagli á hausti. Allt hefur lagst á eitt til að torvelda Búrgundarbúum vinnu sína. Í fyrra missti Jadot 65% af uppskerunni og frá 2018 hefur framleiðslan að jafnaði dregist saman um helming.
Ofan á þetta bætist svo heimsfaraldurinn sem Delch segir að hafi þó merkilegt nokk reynst Jadot hagfelldur. Þrátt fyrir að veitingahús og fríhafnir um allan heim, sem eru einn mikilvægasti markaður gæðavín, hafi lokað nær fyrirvaralaust komi það fyrirtækinu til góða að vera með þétt dreifingarnet um allan heim. Fólk hafi ekki hætt að gera vel við sig þótt það væri lokað inni heima og gerði jafnvel betur við sig en áður einmitt út af því. Margir hafi líka verið fljótir að átta sig á því að fyrir sama pening og þeir hafi verið vanir að kaupa vín á veitingahúsum mætti má fá mun betra vín úti í búð. Jadot hafi fundið fyrir þessu í stóraukinni eftirspurn eftir dýrari vínum. Þá hafi það einnig komið þeim til góða hversu þekkt vínhúsið væri og guli flöskumiðinn sem prýðir öll vín Jadot auðþekkjanlegur. Í frakklandi hefði fólk t.d. í hámarki faraldursins einungis fengið að fara úr húsi í klukkutíma á dag til að sinna útréttingum og því hefðu margir verið að flýta sér og því gripið í það sem þeir þekktu og treystu.
En aukinn eftirspurn eftir Búrgundarvínum á sama tíma og framboðið dregst gífurlega saman út af uppskerubresti veldur spennu á markaðnum og framleiðendur neyðst til að hækka verð töluvert til að mæta minni framleiðslu. Ofan á allt bætist síðan átökin í Úkraínu sem hafi stórhækkað verð á margvíslegum aðföngum. Nú sé fyrirtækið til dæmis að reyna að tryggja sér pappakassa fyrir næstu jól. Delch leggur þó áherslu á að mikilvægt sé að reyna að stilla hækkunum eins og hægt er í hóf. Búrgund vilji ekki feta í fótspor Bordeaux á síðustu árum þar sem verð hefur hækkað fram úr hófi og fá þannig á sig það orð að héraðið sé að hagnýta sér ástandið.
Við heimsóttum Jadot fyrir nokkrum árum og hittum meðal annars víngerðarmann hússins Jacques Lardiére. Þið getið lesið nánar um það með því að smella hér.