Miðvikudaginn 1. júní gefst vín- og matarunnendum einstakt tækifæri til að njóta matar frá landsliðskokkum Héðins af matseðli sem var vandlega settur saman fyrir vínpörun frá vínhúsinu Robert Mondavi í Napa.
Mondavi fæddist árið 1913 í Minnesota, sonur innflytjenda frá Marche á Ítalíu. Fjölskyldan flutti til Lodi í Kaliforníu á bannárunum og að loknu háskólanámi starfaði hann með föður sínum hjá Sunny St. Helena Winery um nokkurra ára skeið eða þar til honum tókst að telja hann á að festa kaup á víngerðinni Charles Krug árið 1943.
Þar vann hann næstu árin eða allt til ársins 1966 er hann gekk út vegna ágreinings við Peter bróður sinn um rekstur og stefnumótun.
Robert hafði ferðast mikið um víngerðarhéruð Evrópu og hafði háleitar og djarfar hugmyndir um hvert bæri að stefna. Aðrir í fjölskyldunni vildu hins vegar fara sér hægt og vildu litlar breytingar gera á rekstri Charles Krug. Hann stofnaði því víngerð í eigin nafni – þá fyrstu sem stofnuð hafði verið í Napa frá því á fjórða áratugnum. Að loknum málaferlum innan fjölskyldunnar náðist dómssátt um að Peter héldi áfram rekstri Charles Krug en Robert fengi helstu ekrur fjölskyldunnar í Oakville.
Napa-dalurinn var á þessum tíma fjarska ólíkur því sem hann er í dag. Kaliforníuvín – Napa-vín sem önnur – höfðu það orð á sér að vera ódýr og ekkert sérstaklega merkileg og engum datt í hug að reyna að breyta því. Að minnsta kosti þar til Robert Mondavi Winery opnaði dyr sínar í bænum Oakville.
Viðhorfin breyttust svo endanlega með hinni svokölluðu Parísarsmökkun sem haldin var 1976. Breskur vínsali ákvað, svona meira til gamans, að stilla saman nokkrum af bestu vínum Frakklands á móti bestu vínum Napa. Níu virtir, franskir sérfræðingar voru fengnir til að dæma vínin og gefa þeim einkunn. Niðurstaðan var hins vegar langt í frá sú sem allir áttu von á, þ.e. að Kaliforníuvínin yrðu að algjöru athlægi. Þvert á móti, Frökkum til skelfingar voru það Kaliforníuvínin sem rúlluðu hinum frönsku upp. Jafnt þau hvítu sem rauðu. Eftir þetta var ekki lengur hlegið að vínum frá Napa enda vakti smökkunin heimsathygli. Það skipti líka miklu máli að það voru helstu sérfræðingar Frakklands sem komust að þessari niðurstöðu en ekki einhverjir Bandaríkjamenn.
Mondavi var leiðandi í Napa og raunar í bandarískri víngerð og mótaði þá þróun sem gerði Kaliforníuvínunum kleift að ná þessum árangri í París. Hann beitti nýjum aðferðum, kaldgerjun, og notaði jafnt stáltanka sem nýjar eikartunnur. Hann réði til sín unga og hæfileikaríka víngerðarmenn sem síðar gátu sér gott orð annars staðar s.s. Warren Winiarski (sem stofnaði Stags Leap) og Mike Grigich (Grigich Hills).
Hann umbylti viðhorfi markaðarins til Sauvignon Blanc með því að kalla vínin Fumé Blanc. Vínin frá Mondavi spönnuðu allan skalann. Hann keypti vínsamlag í Lodi til að framleiða einföld vín undir nafninu Woodbridge og í Oakville hóf hann samstarf við Philippe de Rothschild, eiganda Chateau Mouton-Rothschild í Bordeaux, sem gat af sér ofurvínið Opus One. Í Chile gerði hann vínið Sena ásamt Chadwick-fjölskyldunni og á Ítalíu átti hann samstarf við Frescobaldi-fjölskylduna í Toscana.
Þótt Mondavi-fjölskyldan eigi ekki lengur vínhúsið sem ber nafn hennar eru Mondavi-vínin enn með þeim þekktustu í Kaliforníu og vínið To Kalon sem kemur af samnefndri ekru við höfuðstöðvarnar í Oakville er með bestu vínum Napa.
Vínsérfræðingar kvöldsins eru þeir Steingrímur Sigurgeirsson og Sævar Már Sveinsson og munu þeir leið gesti í gegnum vínin og fræða um Napa og Mondavi.
Steingrímur er hokinn af reynslu í vínheimum og hefur skrifað um vín í yfir 30 ár og og heldur í dag utan um vinotek.is þar sem fjallað er um mat og að sjálfsögðu vín.
Sævar Már er einn mest verðlaunaði vínþjónn Íslands og hefur keppt á heimsmeistaramótum við góðan orðstír. Hann er einstaklega vel að sér í vínfræðunum, pörun matar og vína og hefur haldið fjölda vínnámskeiða í gegnum árin. Sævar Már er fagmenntaður framreiðslumaður og hefur nýlokið 3. gráðu WSET í vínfræðum.

Nánari upplýsingar um viðburðinn og borðapantanir má finna með því að smella hér