Vínnes hefur á undanförnum árum staðið fyrir reglulegum vínsýningum þar sem að vínhús sem Vínnes hefur umboð fyrir kynna vínáhugafólki á Íslandi það sem þau hafa upp á að bjóða. Sýningin var haldin í höfuðstöðvum móðurfélagsins Innnes í Korngörðum þangað sem Vinnes hefur nú flutt starfseminua. Vörusýningin var sú stærsta sem efnt hefur verið til – enda hefur Vínnes verið í örum vexti á síðustu árum, m.a. með kaupum á öðrum innflutningsaðilum s.s. Vínfélaginu.
Alls voru um þrjátíu vínframleiðendur með fulltrúa á sýningunn og að þessu sinni voru ekki einungis vín til kynningar sem þegar eru í sölu heldur ekki síður vín sem að vínhúsin telja að geti átt möguleika á Íslandi og vildu fá tækifæri til að kynna og sjá viðbrögðin.
Philip Tuinder frá Chateau-Fuissé var þannig ekki einungi með hin sígildu hvítvín þessa frábæra vínhúss heldu bauð einnig upp á smakk af mögnuðu Juliénas-víni frá einu af Beaujolais-cru-þorpunum.
Annað lítið og vandað vínhús sem sérhæfir sig sömuleiðis í hvítvínum er Les Fréres Couillaud. Amélie Dugué-Coillaud ákvað að koma þrátt fyrir að uppskera væri í fullum gangi á ekrum fjölskyldunnar í Loire en skyldi eiginmanninn eftir til að passa upp á hlutina í fjarveru sinni. Ekrur fjölskyldunnar hafa sumar verið í rækt frá 1370 en vínhús Coillaud-fjölskyldunnar var stofnað af föður Amélie og bróður hans árið 1978. Hún tók við stjórninni ásamt manni sínum fyrir nokkrum árum og hafa lagt áherslu á fersk og flott vín þar sem þau hika ekki við að nota þrúgur á borð við Chardonnay, sem ekki er hefð fyrir í Loire. Sú þrúga nýtur sín t.d. vel í Domaine de la Moriniére IGP Val de Loire.
Spánverjar voru fyrirferðarmiklir á sýningunni. Þarna rákumst við á kunnugleg andlit á borð við Joan Cusiné frá Parés-Balta sem kynnti m.a. hvítvínið Calcari, sem hingað til hefur ekki verið fáanlegt hér á landi. Afskaplega ferskt og míneralískt Xarello-vín, þrúga sem við þekkjum líklega best í gegnum Cava.
Oscar Urrutia, annar sannkallaður Íslandsvinur, er nú hjá Bodegas Olarra en margir þekkja eflaust núorðið hin frábæru Cerro Anon-vín hússins. Hann var hins einnig með önnur mjög athyglisverð vín á boðstólum m.a. Valdebarón sem eru ræktuð í kringum þorpið Viana á mörkum Rioja og Navarra. Valdebarón notar töluvert af þrúgunni Mazuelo sem gefur vínunum mikla sérstöðu. Þetta er þrúgan sem við þekkjum sem Carignan í Frakklandi og á þessum spænsku slóðum gefur hún vínunum bæði krydd, kraft og tannín.
Annað Rioja-vín sem væri spennandi að sjá meira af er Contino sem er hluti af Cune-grúppunni. Contino var fyrsta einnar ekru Rioja-vínið er það leit dagsins ljós árið 1973 og hefur síðan verið eitt af forystuvínunum í flokki nýbylgju-Rioja-vína.
Það var líka ánægjulegt að koma við á básnum hjá Alicia Merino de Diegi frá Bodegas Mauro. Garcia-fjölskyldan sem á Mauro framleiðir vín í þremur vínhúsum á ólíkum stöðum við fljótið Duero. Auk Mauro eiga þau San Román í Toro og Garmón Continental í Ribera del Duero. Mauro er flaggskipið og það er vín sem hefur verið í dálæti um langt skeið, það er ræktað undir merkjum vínsvæðisins Vino de la Tierra de Castilla y Leon þó það sé rétt við mörkin að Ribera, þá ná ekrurnar ekki þangað inn. Tempranillo er ríkjandi þrúga en hluti vínsins er yfirleitt einnig úr Cabernet Sauvignon og Syrah.