Bollinger er ekki í hópi allra stærstu kampavínshúsanna en það hefur alla tíð skipað sér í þann sem eru leiðandi í Champagne, bæði hvað varðar gæði, þróun og nýsköpun. Nýjasta viðbótin sem okkur gafst kostur á að smakka á dögunum eru vín sem nefnd eru PN en sú skammstöfun stendur fyrir að vínið sé hreint Pinot Noir – eða það sem löngum hefur verið kallað Blanc de Noirs. Fyrsti árgangurinn var 2015 og var það þá fyrsta nýja varanlega „cuvée“-ið frá Bollinger frá því að rósavínið var kynnt 2008.
Bollinger hefur alla tíð verið í hópi þeirra húsa sem leggja mikla áherslu á Pinot Noir í blöndunni sinni og með nýju PN-línunni er ætlunin að draga fram einstakar cru-ekrur í eigu Bollinger og birtingarmynd Pinot Noir í vínum þaðan. Kjallarameistarar hússins smakka grunnvín og velja eitt þorp úr hópi cru-ekranna. Það myndar í framhaldinu grunninn í blöndunni (cuvée) fyrir PN-vín ársins eða um 55% og síðan er eldri réserve-vínum bætt við til að fullkomna hana. Í PN VZ15 er til dæmis elsta réserve-vínið í blöndunni frá árinu 2009.
Við smökkuðum tvö PN-vín. Annars vegar PN VZ15 og hins vegar PN TX17. VZ stendur fyrir þorpið Verzenay og TX fyrir Tauxiéres. Bæði mjög áhugaverð, hvert fyrir sig reyndist sýna einstaka birtingarmynd af bæði Pinot Noir og hússtílnum. PN VZ15 áberandi þyngra og mýkra, meiri þroski. PN TX17 ferskara, sítrusmeira, míneralískara.
Þriðja vínið er vín sem ekki verður gert aftur, það er limited edition og því ekki hluti af hinni varanlegu vínlínu Bollinger eins og PN-vínin eru orðin. Það heitir B13 og er einnig hreint Pinot Noir. Árið 2013 var erfitt fyrir vínræktendur í Champagne, vorið kalt og rakt og þroski vínviðarins síðar á ferðinni en í meðalári en sumarið síðan sjóðheitt og vindasamt. Þrátt fyrir það voru nokkrar af cru-ekrum Bollinger að gera ansi gott mót og var ákveðið að gera einstakt árgangskampavín sem endurspeglaði Pinot Noir 2013. Ljóst og unglegt, sýran fersk og mjög framarlega, vínið með mikla dýpt sem kemur ekki síst í ljós eftir að freyðingin fer að minnka.
Loftslagsbreytingar hafa enn sem komið er ekki ekki valdið víngerðinni í Champagne teljandi vandræðum. Sökum þess hve norðarlega (á víngerðarskalanum) héraðið er staðsett er hlýnun enn sem komið er frekar að opna ný tækifæri. Þannig eru stöðugt fleiri kampavínshús farin að framleiða (í litlu magni) hefðbundin rauðvín úr Pinot-þrúgum sem falla undir AOC-skilgreininguna Coteaux Champagne. Bollinger hefur raunar gert það um áratugaskeið úr þrúgum af ekrunni La Cote aux Enfants skammt frá höfuðstöðvunum í Ay.
Það er raunar ekki bara loftslagið sem hefur hamlað rauðvínsgerð í Champagne, kalksteinsjarðvegurinn er sömuleiðis ekki til þess fallin að gera stór og mikil vín eins og í nágrannahéraðinu Bourgogne. Bollinger er hins vegar ekkert að gefa eftir, vínið er gert í stíl Búrgundarvínanna og 2015 árgangurinn var enn ungur og sprækur, vínið stútfullt af rauðum, djúpum ávexti. Enn ein spennandi birtingarmynd Pinot frá Bollinger.